Arfleifð Steve Ballmer

Steve Ballmer, forstjóri Microsoft kom mörgum á óvart í vikunni þegar hann tilkynnti að hann hyggðist láta af störfum sem forstjóri fyrirtækisins innan 12 mánaða. Ballmer hefur ekki alltaf siglt lygnan sjó í störfum sínum fyrir Microsoft, og kannski er það til marks um það hve umdeildur hann hefur verið í starfi að sama dag og hann tilkynnti um áform sín hækkuðu hlutabréf í fyrirtækinu um rúm 9%.

Steve Ballmer gekk til liðs við Microsoft sem rekstrarstjóri árið 1980 þegar stofnendurnir, Paul Allen og Bill Gates sáu fram á að geta ekki lengur séð um rekstrarhliðina í ört vaxandi fyrirtæki, en starfsmenn voru þá orðnir 30 talsins. Ballmer og Gates höfðu verið samtíða í Harvard háskóla, þar sem Ballmer lagði stund á nám í stærðfræði og hagfræði. Bill Gates hafði þó hætt skólagöngu til þess einbeita sér að því að byggja upp fyrirtæki sitt, en Ballmer hélt áfram námi við Stanford Business School þar sem hann var þegar hans gamli vinur leitaði til hans með að annast rekstur Microsoft.

Þeir unnu náið saman í 20 ár. Ballmer var hægri hönd Gates, og stýrði rekstri fyrirtækisins með góðum árangri. Í krafti vinsælda Windows stýrikerfisins, sem keyrði tæplega 90% af öllum tölvum í Bandaríkjunum þegar best lét; og Office skrifstofuvöndulsins, náði fyrirtækið gríðarlega sterkri stöðu á markaðnum fyrir einkatölvur, ásamt því að vera nær einrátt á netþjóna markaði. En fljótt skipast veður í lofti.

Ballmer tók við stjórnataumunum í Microsoft úr höndum Bill Gates árið 2000 sem færði sig í sæti þróunarstjóra og seinna meir stjórnarformanns.. Fyrirtækið var á þeim tíma eitt stöndugasta fyrirtæki heims, og Bill Gates hafði nýverið toppað lista Forbes yfir ríkustu einstaklinga heims. Hlutabréfaverð í Microsoft stóð í hæstu hæðum, en hluturinn var seldur á um $60. Einungis tveimur árum síðar var hluturinn kominn í um $20 dollara og hefur vart borið sitt barr síðan.

Áratugur glataðra tækifæra

Aldamótin voru talsverður umbrotatími í upplýsingatæknibransanum. Árið 1997 sneri Steve Jobs aftur til þess að stjórna Apple, sem var óðum að koma undir sig fótunum eftir mörg mögur ár án hans leiðsagnar. Árið 2001 kom fyrsta kynslóð af stýrikerfinu OS X sem átti eftir að saxa verulega á einokunarstöðu Windows stýrikerfisins. Sama ár bylti Apple heimi tónlistar þegar það kynnti til sögunnar iPod tónlistarspilarann og iTunes tónlistarverslunina. Um svipað leyti tók líka að bera á litlu fyritæki sem kallaðist því skrýtna nafni Google, en það átti eftir að gjörbylta upplýsingatækni innan fárra ára.

Microsoft var seint að átta sig á því að landslagið var að breytast. Þess í stað tefldi það fram leikjatölvunni Xbox, sem átti að etja kappi við Playstation og Nintendo leikjatölvurnar. Þrátt fyrir að keppa þar á erfiðum markaði tókst Microsoft ágætlega til með Xbox leikjatölvuna. Margir telja þó að þessi framleiðslulína hafi aldrei fengið þann stuðning sem hún átti skilið hjá fyrirtækinu, en þar snerist öll ákvarðanataka um Windows.

Á sama tíma og Apple var að þróa iPod spilarann var deild innan Microsoft að vinna að gerð lesbrettis fyrir rafbækur. Þessi undanfari spjaldtölvunnar hafði snertiskjá og var hannaður með lestur í huga. Apparatið komst þó aldrei af þróunarstiginu, en Bill Gates mun sjálfur hafa afskrifað þessa framleiðslu, þar sem honum þótti það ekki samræmast Windows umhverfinu. Þar með sigldi það skip.

Microsoft reyndi að elta vinsældir iPod með Zune mp3 spilaranum árið 2006, án teljandi árangurs. Sama ár koma fram stýrikerfið Windows Vista, sem tók 200 mannár í þróun, en enginn vildi kaupa. Ballmer hefur nýlega sagt að Vista hafi verið hans stærstu mistök hjá Microsoft. Árið 2007 kom iPhone síminn frá Apple á markað og árið eftir komu fyrstu Android símarnir. Windows hafði þá þegar reynt fyrir sér í gerð stýrikerfa fyrir síma, en sáu sæng sína útbreidda.

Verkfræðingar Microsoft héldu aftur að teikniborðinu og það var raunar ekki fyrr en á síðasta ári sem þeir blönduðu sér í baráttuna á snjallsímamarkaði þar sem þeir hafa reynt að brjóta sér leið inn á markað sem Android og Apple hafa nánasta algjörlega skipt á milli sín. Undanfarið hefur Microsoft lagt allt í sölurnar við þróun Windows 8 stýrikerfisins, sem ólíkt öðrum stýrikerfum er ætlað að keyra á öllum framleiðslulínum fyrirtækisins, þ.e. snjallsímum, spaldtölvum og einkatölvum og þeir telja að geti skapað þem ákveðna sérstöðu á markaðnum.

Árið 2009 réðst Microsoft í gerð Bing leitarvélarinnar í samkeppni við Google. Þrátt fyrir mikinn þróunarkostnað hefur Bing ekki náð að skapa sér meira en 17% hlutdeild í leit, enda er alltaf erfitt að keppa við fyriræki sem hafa náð slíkri fótfestu á markaði að nafn þeirra verður að sagnorði. Frá aldamótum hefur skortur á framsýni orðið til þess að Microsoft hefur setið eftir á meðan heimurinn allt í kring hefur breyst. Kjarnstarfsemi þeirra er enn Windows og Office, en vægi þessara vara fer sífellt minnkandi.

Kerfisbundin vandi

Það hefur verið talsvert skrifað um stjórnunarstíl Ballmers í gegnum tíðina, en þeir sem kynnt hafa sér söguna virðast nokkuð sammála um að það sem öðru fremur hafi drepið viljann til nýsköpunnar og framþróunar hjá Microsoft hafi verið kerfisbundinn vandi sem hlaust af stjórn fyrirtækisins. Vandinn var einkum tvíþættur.

Þegar harðnaði í ári hjá Microsoft voru kaupréttarsamningar aflagðir hjá starsmönnum, sem höfðu fram til þessa getað treyst á að vera verðlaunaðir fyrir góð störf með kauprétti. Það þýddi að öruggasta leiðin til þess að þéna meiri peninga var ekki lengur að finna upp eitthvað, heldur að hækka í metorðastiganum og komast í stjórnunarstöður. Þetta leiddi til þess að mikil ásókn var í stjórnendastöður og millistjórnendum í fyrirtækinu fjölgaði gífurlega. Þetta gerði alla ákvörðunartöku tímafreka og verkferla langa og vöruþróun varð langt um hægari en ella. Þá hafði stór hluti hinnar nýju stéttar millistjórnenda hjá Microsoft ráðið sig til fyrirtækisins á árunum milli 1980-1990, og hafði lítinn skilning á breyttu notkunarmynstri yngri kynslóða á einkatölvunni.

Þá tók Microsoft upp stjórnunarferli sem byggði á normaldreifingu. Ferlið fólst í stöðumati á sex mánaða fresti þar sem fyrirskipað var að starfsmenn skildu metnar miðað við normaldrefingu. Það þýðir í grófum dráttum að í tíu manna hópu voru tveir metnir sem afburðastarfsmenn, þrír sem góðir starfsmenn, þrír sem slakari starfsmenn, og tveir sem slæmir starfsmenn, hvað sem tautaði og raulaði. Þeim sem gekk vel á stöðumatinu voru yfirleitt verðlaunaðir með stöðuhækkunum og bónusum, en þeim sem gekk verr var jafnvel sagt upp störfum.

Þetta leiddi til þess að hæfileikaríkir starfsmenn forðuðust að vinna með öðrum hæfileikaríkum starfsmönnum eða með öðrum deilum og í stað þess að vinna að sameiginlegum markmiðum, hugsuðu starfsmenn einkum um eigin árangur, og gengu jafnvel svo langt að grafa undan samstarfsmönnum. Þar sem matið fer fram á sex mánaða fresti varð starfsmönnum einkum umhugað um að skammtímahagsmuni, frekar en langtíma markmið.

Kveðjustund Ballmer

Það er ljóst að á 13 ára tímabili undir stjórn Steve Ballmer hefur leið Microsoft legið stanslaust niður á við. Margir vilja kenna stjórnunarstíl hans um, og sem dæmi má nefna að Forbes tímaritið valdi hann á síðasta ári sem versta starfandi forstjóra stórfyrirtækis í Bandaríkjunum. Það verður þó að hafa í huga að þrátt fyrir að Bill Gates hafi ekki komið að daglegum rekstri fyrirtækisins þá á hann sinn þátt í því að hallað hefur undan fæti, bæði sem þróunarstjóri hugbúnaðar og stjórnarformaður. Aðrir benda á að Microsoft hefur lifað af hverja tæknibyltinguna á fætur annari, og er enn á meðal stærstu fyrirækja heims, undir stjórn Steve Ballmers.

Nú er svo komið að fyritækið verður að taka nýja stefnu, og Ballmer hefur sagt að hann sé líklega ekki rétti maðurinn til að stjórna fyrirtækinu í gegnum það breytingaskeið sem framundan er. Það er óvíst hver kemur til með að taka hans sæti, og það er óvíst hvort fyrirtækið heldur áfram á sömu braut, en margir greinendur telja að ráðlegast væri að skipta fyrirtækinu upp í smærri einingar. Hvað sem því líður þá á Microsoft ennþá umtalsvert fé, og gæti í höndum réttra aðila auðveldlega endurheimt hluta af fyrra veldi sínu, þó ólíklegt sé að nái fyrri hæðum.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s