Stærstu stundir Twitter

Ellen DeGeneres vakti mikla athygli fyrir frammistöðu sína sem kynnir á Óskarsverðlaunahátíðinni. Mynd sem hún tísti af sjálfri sér með verðlaunahöfunum vakti líklega meiri athygli en verðlaunaafhendingin sjálf. Hér er samantekt af nokkrum eftirminnilegum atburðum í sögu Twitter.

Jack Dorsey sendir fyrsta tístið

Jack Dorsey var fyrstur til að uppfæra Twitter. Hann sendi frá sér stutt tíst sem sagði: „just setting up my Twittr.“ Dorsey var einn stofnenda Twitter og sá um að forritun vefsins í upphafi. Fljótlega fylgdu tíst frá öðrum stofnfélögum sem flest hljómuðu á sömu leið. Miðillinn fór hægt af stað, en fljótlega tóku notendur við sér. Enn þann dag í dag er algengast að fyrsta tíst fólks fjalli um að það sé að prófa Twitter.

Ellen DeGeneres tekur selfie

Sjálfsmynd (selfie) Ellen DeGeneres með verðlaunahöfum á óskarsverðlaunahátíðinni hefur vakið mikið umtal. Þó atriðið hafi litið út fyrir að hafa verið sjálfsprottið bendir margt til að um auglýsingu hafi verið að ræða. Vitað er að Ellen notar iPhone síma dags daglega, og Samsung var einn af styrktaraðilum hátíðarinnar. Það er þó ljóst að beinar útsendingar í sjónvarpi og samfélagsmiðlar eiga samleið eins og kókómalt og kringla. Samkvæmt upplýsingum frá Twitter voru send 14,7 milljón tíst í tengslum við Óskarsverðlaunaafhendinguna. Mynd Ellen varð mjög fljótlega mest endurbirta (retweet) tíst sögunnar, varð fyrsta tístið til að vera endurbirt meira en milljón sinnum og endaði í rúmlega tveimur milljónum.

#12stig

Það styttist í árshátíð Twitter notenda á Íslandi, sjálfa Eurovision keppnina. Eins og áður segir eru beinar útsendingar frá vinsælum viðburðum í sjónvarpi með vinsælasta umfjöllunarefni fólks á samfélagsmiðlum. Þannig voru alls send 20.710 tíst merkt #12stig á úrslitakvöldi Eurovision í fyrra. Vinsældirnar má rekja til þess að fólk vill upplifa stórar stundir saman og segja hvort öðru frá sinni upplifun. Kosningar eru annar hápunktur fyrir twitter notendur, en íþróttaviðburðir standa líka alltaf fyrir sínu. Þannig er úrslitaleikur ameríska fótboltans iðulega sá atburður sem mest er tíst um á hverju ári í Bandaríkjunum.

Osama er allur

Fréttir af því að Osama Bin Laden hefði verið drepinn bárust fyrst á Twitter. Það var Keith Urbahn, fyrrum skrifstofustjóri Donald Rumsfeld sem var fyrstur til að segja frá þessu en fjölmiðlar gripu söguna á lofti og fjölluðu um málið áður en staðfesting lá fyrir að hálfu Bandaríkjastjórnar. Á meðan á árásinni stóð lýsti pakistanskur maður að nafni Sohaib Athar atburðarásinni á Twitter, alls óvar um hvað raunverulega var að gerast.

„Fjögur ár til“

Barack Obama tilkynnti sigur sinn í forsetakosningunum 2012 með stuttum skilabðum á Twitter: „Four more years,“ eða fjögur ár til. Tístinu fylgdi mynd af forsetahjónunum í faðmlögum þar sem þau fögnuðu úrslitum kosninganna. Þar til um síðustu helgi var þetta mest endurbirta tíst í tögu Twitter með rúmlega 800.000 endurbirtingar. Twitter er talið hafa átt talsverðan þátt í að tryggja Obama sigur í kosningunum 2008 en hann var einn af þeim fyrstu til þess að nýta sér samfélagsmiðla í kosningabaráttu með góðum árangri.

Uppþot í Smáralind

Í byrjun árs ætlaði allt um koll að keyra þegar tvö ungmenni sem öðlast hafa frægð fyrir að fara með gamanmál í gegnum örmyndbandaforritið Vine mættu i Smáralindina í Kópavogi. Fjöldi íslenskra unglinga mætti á svæðið og mikið öngþveiti skapaðist. Börn voru flutt meidd af vettvangi og bílar skemmdust í látunum. Þótt tæknilega séð sé Vine sjálfstætt forrit er það í eigu Twitter og smíðað af fyrirtækinu og Twitter er ein helsta dreifileið myndbandanna, svo það ætti að vera óhætt að telja þetta atvik með á þessum lista. Atburðurinn varð til að kynna marga Íslendinga fyrir Vine forritinu og áhrifum samfélagsmiðla.

Flugslys í Hudson

Löngu áður en fjölmiðlar komust á staðinn til þess að segja frá því hvað var að gerast náði maður að nafni Janis Krums að segja heiminum frá brotlendingu flugvélar í Hudson ánni í New York. Hann sendi tíst með mynd af flugvélinni í ánni og sagði frá því að hann væri í ferju á ánni sem væri á leið að flugvélinni til að bjarga farþegum úf flakinu. Fljótlega var hægt að finna fjölda mynda og myndbanda frá slysstað og af björgunaraðgerðum á Twitter.

Kappið í milljón

Árið 2009 háðu leikarinn Ashton Kutcher og sjónvarpsstöðin CNN harðvítuga baráttu að verða fyrst til að fá eina milljón fylgjenda á Twitter. Ryan Anderson og Larry King báðu áhorfendur að fylgja sér á Twitter, á meðan Kutcher virkjaði stjörnur á borð við Shaquille O’Neal og P Diddy til að bera út boðskapinn fyrir sig. Kutcher varð fyrstur í milljón, og var gestur í þætti Oprah Winfrey tveimur dögum síðar þar sem Oprah sendi sitt fyrsta tíst. Aðdáendur Oprah skráðu sig á Twitter í umvörpum, en aldrei hafa fleiri skráð sig en þennan eina dag, nær hálf milljón notenda.

Whitney dáin

Andlát söngkonunnar Whitney Houston spurðist fyrst út á Twitter. Frænka konu sem vann fyrir Whitney sendi frá sér tíst þar sem sagð að frænka hennar hefði tilkynnt henni að hún hefði fundið Whitney Houston dauða í baðkarinu heima hjá sér. Sagan dreifðist hratt á samfélagsmiðlum áður en fjölmiðlar náðu að staðfesta fréttina.

Selfie í jarðaför

Þó vissulega hafi sjálfsmynd Ellen DeGeneres vakið mikla athygli þá skammt að minnast þess að Barack Obama, David Cameron og Helle Thorning-Schmidt vöktu hörð viðbrögð þegar þau tóku sjálfsmynd af sér saman við útför Nelson Mandela. Það má þó nefna að myndin sem þau tóku á síma Thorning-Schmidt hefur aldrei birst opinberlega en að sjálfsögðu var umræðan um Twitter talsverð í kringum þetta atvik, ekki síst á Twitter.

Tíst úr geimnum

Það var bandaríski geimfarinn Mike Massimo sem varð fyrstur til þess að senda tíst úr geimnum árið 2009. Það var hins vegar kanadíski geimfarinn Chris Hadfield sem fangaði athygli heimsins með skemmtilegum tístum úr geimnum, og fræðandi Youtube myndböndum um áhrif þyngdarleysis.

Birtist fyrst í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í mars, 2014.
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s