Hyperloop

Elon Musk
Brjálaði uppfinningamaðurinn? Elon Musk er holdtekning hugmyndarinnar um brjálaða uppfinningamanninn. Leikstjórinn Jon Favreau hefur sagt að hann sé fyrirmynd sín að persónu Tony Stark í kvikmyndum hans um Járnmanninn.

Í ljósi þess að Elon Musk hefur nú birt teikningar sínar af Hyperloop samgöngutækinu, og um fátt annað talað þessa dagana, þá endurbirti ég hér grein sem ég skrifaði fyrir ca. 3 vikum síðan það hvernig þessi tækni kynni að líta út. Greinin birtist upprunalega í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Það má láta hjá líða að lesa um getgáturnar um það hvernig þetta kynni að verða, og skoða frekar teikningarnar sem Musk hefur birt. Það eru þó nokkrir forvitnilegir bitar um Musk þarna með, sem kynnið að gleðja einhverja. 

Undanfarið hafa borist fregnir af háhraða samgöngutæki sem þúsundþjalasmiðurinn Elon Musk hefur á teikniborðinu. Gangi hugmyndir hans eftir myndi slíkt farartæki ferðast á milli Los Angeles og San Francisco á 30 mínútum. Musk tilkynnti nýlega á Twitter að hann hefði í hygggju að birta fyrstu teikningar af farartækinu þann 12. þessa mánaðar. Margir bíða þess í ofvæni hvað hann hefur fram að færa.

Áhugi Elon Musk á háhraða almenningssamgöngum vaknaði þegar hann skoðaði áætlanir um nýja háhraðalest sem ráðgerð er á milli Los Angeles og San Francisco. Það eru rúmlega 600 km sem skilja borgirnar að, en sú háhraðalest sem nú er á teikniborðinu myndi stytta ferðatímann á milli borganna í tæplega þrjár klukkustundir. Elon Musk telur að hægt sé að gera betur. Undanfarið hefur hann gefið í skyn að hann sé að vinna í útfærslu á því sem hann hefur kallað fimmtu stoðina í samgöngum (hinar fjórar væru bílar, bátar, lestar og flugvélar) sem myndi stytta ferðatímann á milli Los Angeles og San Francisco í um 30 mínútur.

Brjálaði uppfinningamaðurinn

Undir flestum kringumstæðum væru svona yfirlýsingar afskrifaðar sem hvert annað bull, í það minnsta þar til teikningar lægju fyrir. En þegar Elon Musk talar er tækniheimurinn vanur að hlusta.

Musk fæddist í Suður-Afríku árið 1971, en fluttist til Bandaríkjanna til að stunda háskólanám í hagfræði og eðlisfræði ungur að aldri. Að loknu námi setti hann ásamt bróðir sínum á laggirnar fyrirtæki sem nefndist Zip2 og bjó til hugbúnað fyrir fréttastofur. Þeir högnuðust ágætlega þegar Compaq keypti það fyrir $300 milljónir árið 1999. Einungis nokkrum mánuðum síðar stofnaði Musk fyrirtækið X.com til að þróa greiðsluaðferðir yfir netið. Það sameinaðist fljótlega öðru fyritæki og úr varð PayPal.  Musk hagnaðist gríðarlega árið 2002 þegar eBay keypti PayPal fyrir $1,5 milljarða, en hann var þá stærsti einstaki hluthafinn með um 12% eignarhlut.

Musk hafði þá þegar stofnað SpaceX, með það að markmiði að gera geimferðalög ódýrari. Þar  hefur hann einbeitt sér að því að þróa eldflaugar og geimför og starfar bæði sem forstjóri og yfirmaður tæknimála. SpaceX hefur náð góðu árangri í að þróa eldflaugar, en það varð jafnframt fyrsta einkafyrirtækið til að þróa geimfar sem tengst hefur alþjóðlegu geimstöðinni, en Musk segir þróun þess geimfars hafa kostað innan við $200 milljónir, sem er mjög lítið þegar geimferðalög eru annars vegar. Árið 2008 gerði SpaceX samning við NASA um að þróa nýtt birgðaskip sem gæti leyst geimskutlurnar af hólmi við að þjónusta alþjólegu geimstöðina. En samhliða ævintýrum sínum í geimnum hefur Musk einnig fengist við samgöngur á jörðu niðri, en hann er stofnandi rafbílafyrirtækisins Tesla Motors, þar sem hann stýrir vöruþróun. Tesla hefur verið leiðandi í þróun rafmagnsbíla, og meðal annars séð Toyota og Mercedes Benz fyrir móturum til að knýja sína rafmagnsbíla. Þá átti hann einnig þátt í að stofna SolarCity, en það þróar lausnir fyrir sólarorkuframleiðslu fyrir almenning í Bandaríkjunum með góðum árangri.

Samgöngumáti framtíðarinnar?

Þegar Musk fór fyrst að tala um hið nýja samgöngutæki fyrir um ári síðan spenntu margir eyrun. Hann hefur sjálfur kallað það Hyperloop (ísl. yfirlykkja) en lítið viljað segja um frekari útfærslur enn sem komið er. Í nýlegu viðtali lýsti hann fyrirbærinu sem eins konar samsuðu af Concorde þotu, segulbyssu (e. railgun) og þythokkí-borði, sem einfaldar málið lítið. Fjölmiðlar hafa þó verið duglegir við að geta í eyðurnar með aðstoð sérfræðinga og uppfinningamanna. Flestir telja að um sé að ræða einhvers konar segulsvifstækni (magnetic levitation) þar sem segulsvið yrði notað til að knýja farartækið áfram. Slík tækni hefur verið notuð við háhraðalestir í Japan og Kína sem ná um 500 km hraða á klukkustund, en tæknilega séð er hægt að ná talsvert meiri hraða með segulsvifi.

Til að ná áætluðum ferðatíma milli Los Angeles og San Francisco þyrfti hámarkshraðinn hins vegar að vera vel yfir 1000 km á klukkustund. Það krefst mikillar orku að ná slíkum hraða, en Musk hefur sagt að hann sjái þetta farartæki ganga fyrir sólarorku. Til að það sé mögulegt telja sérfræðingar að farartækið þyrfti að ferðast í lofttæmi til að útiloka loftmótstöðu og draga úr hávaða. Slíkar aðstæður mætti búa til í rörum eða göngum sem faratækið gæti ferðast eftir. Musk hefur þó sagt á twitter að hann sjái ekki fyrir sér farartæki sem ferðist í lofttæmi, þó hann hafi gefið í skyn að það myndi í göngum. Áætlarnir hans virðast frekar gera ráð fyrir að í göngunum væri hringrás lofts sem ferðist á miklum hraða í sömu átt og farartækið og drægi þannig verulega úr loftmótsöðu, líkt og þegar hjólað er í meðvindi.

Opin tækni

Þrátt fyrir margar lærðar ágiskanir hefur enginn viljað slá því á föstu hvernig þessi samgöngumáti gæti virkað. Flestir eru þó tilbúnir að taka þetta alvarlega þar sem Elon Musk er annars vegar. Musk hefur fyrir sitt leyti sagt að hann muni ekki leita eftir einkaleyfi fyrir þessa hugmynd, heldur muni birta teikningar sínar undir opnum skilmálum sem muni gera öllum kleift að betrumbæta þær.

Það er þó ljóst að ef hugmyndir hans ganga eftir myndi það gjörbylta samgöngum í heiminum. Hvort það verður fáum við væntanlega að vita 12. ágúst.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s