8 leiðir til að taka betri myndir á snjallsíma

IMG_0926

Með tilkomu snjallsíma og smáforrita á borð við Instagram hefur myndataka aukist tasvert. Gæði myndanna eru hins ekki endilega betri, enda eru myndavélar í símum fyrst og fremst hentugar fyrir tækifærismyndir, en síður fyrir fjölskyldualbúmið, þó þær hafi tekið gríðarlegum framförum á undanförnum árum og geti undir réttum kringumstæðum skilað mjög góðum myndum. Hér eru nokkur ráð til þess að hjálpa þér að nýta símann til að taka betri myndir. Og mögulega myndavélina líka.

Lýsing er lykilinn

Birta er það fyrsta sem þú þarft að huga að þegar kemur að því að taka myndir á síma. Símamyndavélar eru með litlar linsur sem hleypa ekki inn miklu ljósi og lítinn skynflöt. Því er nauðsynlegt að huga vel að birtuskilyrðum ef þú vil ná skýrri mynd. Best er að taka myndir úti í dagsbirtu. Ef sá möguleiki er ekki fyrir hendi er gott að finna vel lýstan stað innandyra til að ná myndinni. Stundum getur verið nauðsynlegt að koma með auka ljósgjafa, svo sem lampa, til að bæta birtuskilyrðin. Þá er nauðsynlegt að huga vel að staðsetningu svo þeir myndi ekki óheppilega skugga. Forðastu að nota flass á símamyndavélum, því það ekki eiginlegt flass, heldur LED ljós, sem nær sjaldnast að lýsa undirlýsta mynd nægilega vel, og býr til ónáttúrulega birtu.

Vertu kyrr

Ein algengasta orsökin fyrir því að myndir takast ekki á síma er að þær eru hreyfðar. Það er ýmislegt sem getur valdið því. Símar eru litlir og ekki hannaðir með myndatöku í huga. það getur því verið þrautin þyngri að halda þeim með nægilega styrkri hendi á meðan smellt er af. Þar sem flestir símar þurfa góð birtuskilyrði til að taka skýra mynd, eru erfið birtuskilyrði meðhöndluð með því að lengja lokunarhraðann. Það er að segja, með því að hafa lengur opið fyrir skynflöt myndavélarinnar. Með lengri lokunarhraða eykst hættan á hreyfðri mynd. Ef myndefnið sjált er ekki á hreyfinu eru talsverðar líkur á að þú hreyfir símann á meðan á myndatöku stendur. Það er hægt að draga úr hreyfingu símans (þú hefur minni stjórn á myndefninu) með því að halla sér upp að föstum hlut, svo sem vegg. Þá er hægt að stilla símanum upp á borði, eða öðru flötu og stöðugu yfirborði til að halda honum kyrrum. Það er líka ráðlegt að þrýsta varlega á hnappinn/skjáinn, því sú snerting getur auðveldlega hreyft símann. Hægt er að fá statíf á hefðbundinn þrífót fyrir flesta þrífætur, en þá er nú hugsanlega eins gott að fara alla leið og stilla upp alvöru myndavél á þrífæti. Fyrir iPhone notendur er gott að vita að hægt er að nota + takkann á heyrnartólunum til að smella af mynd, sem getur komið sér vil þegar þarf að halda símanum kyrrum.

Hreinsaðu linsuna

Atvinnuljósmyndarar fara afskaplega varlega með linsurnar sínar. Símanotendur fara ekkert svo varlega með linsurnar sínar. Ef þú ert með símann í vasanum er líklegt að þú rispir bæði skjáinn og linsuna ef þú ert með klink eða lykla í sama vasa. Sandur og önnur óhreinindi safnast líka saman í vasanum (prófaðu að skoða hve mikið af ló hefur safnast í rafmagnstengið á símanum þínum). Á bæði Android og Windows símum er algengt að fólk styðji vísifingri beint á linsuna á meðan það talar í símann. Í öllu falli er algengt að fita af höndum safnist á linsuna, sem gerir myndir óskýrar. Þurrkaðu af linsunni reglulega með mjúkum þurrum klút, og reyndu að passa upp á að hún rispist ekki. 

Notaðu ljósmæli og skerpustillingu rétt

Á flestum betri símum er hægt að stilla bæði skerpu (fókus) og þann hluta myndarinnar sem þú vilt hafa rétt lýstan með því að ýta á viðeigandi blett á skjánum. Á flestum símum er hægt að læsa bæði skerpu og lýsingu á einum blett. Þá er hægt að hreyfa símann til að breyta myndbyggingunni, en halda stillingunum óbreyttum. Á sumum myndavélaforritum er hægt að stilla skerpu og lýsingu sitt í hvoru lagi. (Kynntu þér hvaða möguleikar eru í boði á þínum síma).

Farðu nær

Það er heillaráð að nota aldrei aðdrátt (zoom) á símamyndavél. Aðdráttur á símamyndavélum er ekki framkvæmdur með linsunni, heldur með því að stafrænni stækkun punktanna í myndinni. Það bitnar umsvifalaust á skerpu myndarinnar. Besta ráðið er að fara nær myndefninu. Símalinsur eru yfirleitt ágætar til þess að taka myndir af hlutum sem eru nálægt. Ef það er ekki kostur, notaðu þá frekar klippimöguleikann (crop) til að gera myndefnið stærra. Á marga síma er líka hægt að kaupa aðdráttarlinsu (stækkunargler) sem margar hverjar virka ágætlega.

Notaðu þriðjungsregluna

Þegar kemur að myndbyggingu er ágæt þumalputtaregla að skipta myndfletinum í þrjá jafna hluta lárétt, og þrjá jafna hluta lóðrétt. Reyndu að stilla myndefninu þannig upp að myndefnið sé í einum þriðjungnum (eða tveimur þriðjungum) annað hvort lárétt eða lóðrétt. Langar línur (húsveggi, sjóndeildarhring) er gott að láta liggja meðfram þriðjungslínum. Með þessari einföldu tækni skaparðu gott jafnvægi í myndarammann og eðlilegar uppstillingar. Með smá æfingu geturðu svo reynt að nota gullinsniðið, en þá er skiptingin örlítið minni en ⅔ (62% myndrammans í stað 67%) Mundu samt að bæði er þumalputtaregla.

Finndu rétta forritið

Í flesta síma er hægt að fá forrit sem gefur þér fleiri valkosti fyrir myndavél símans heldur en myndavélaforritið sem fylgir símanum. Það getur verið gaman að prófa sig áfram með ólík forrit. Auk þess er hægt að fá ýmiskonar myndvinnsluforrit fyrir flesta síma sem gefur þér kost á að vinna myndina betur, skerpa á litum og leika sér með ljós og skugga. Prufaðu þig áfram með að vinna myndir og láttu fyrirframgefnu stillingarnar í Instagram eiga sig. Instagram er frábært forrit, en þess helsti styrkur er dreifingarmöguleikarnir og tengingarnar við samfélagsmiðla, en ekki myndvinnslan. Stillingarnar eru mjög einsleitar og henta ekki öllum myndum. Það er auðvelt að ná miklu betri árangri í myndvinnslu með öðrum forritum en Instagram, þó maður kjósi svo að nota það til að deila myndum.

Ekki segja SÍS!

Ljósmyndarar hafa lengi haldið á lofti nafni Sambands íslenskra samvinnufélaga, en það er mýta að það framkalli eðlilegt bros. Óháð endalokum SÍS. Reyndu frekar að fá viðkomandi til að hlæja og smelltu af þegar hláturinn er um það bil að breytast í bros. Ef þú getur ekki fengið viðfangsefnið til að hlæja er allt í lagi að biðja það um að hlæja upphátt, því yfirleitt fylgir því ósjálfrátt bros á efir.

Birtist fyrst í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, mars, 2013. 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s