Tónlistarbransinn snýr við plötunni

Adele
Söluhæsti tónlistarmaður ársins 2012 samkvæmt tölum IFPI var söngkonan Adele, en plata hennar, 21 seldist í 8,3 milljónum eintökum. Það þykir sæmilegasta sala, en hún er jafnvel enn tilkomumeiri í ljósi þess að þetta var einnig söluhæsta plata ársins 2011, þegar hún seldi 15,3 milljónir eintaka.

Sígandi lukka er best, segir gamalt íslenskt máltæki. Það er heillaráð að muna fyrir framámenn tónlistariðnaðarins, en í fyrsta skipti í 15 ár sýna sölutölur fram á aukningu í sölu tónlistar á mlli ára. Batinn er hægur, því aukningin nam einungis 0,3% samkvæmt nýrri skýrslu sem Alþjóðasamtök hljómplötuiðnaðarins (International Federation of Phonographic Industry) tók saman fyrir síðastliðið ár. Heildarsala ársins nam $16,5 milljörðum, sem er meira en helmingi minna en þegar fór að halla undan fæti í kringum síðastiðin aldamót þegar sala tónlistar á heimsvísu nam $38 milljörðum. Eigi að síður ríkir bjartsýni um að botninum sé náð, og nú fari í hönd betri tíð með blóm í haga og fleiri plötum frá Adele og Carly Rae Jepsen.

Þrátt fyrir að heildarsalan hafi verið meiri árið 2012 en árið á undan, þá dróst sala raun eintaka geisladiska og hljómplatna saman um 5%. Sala stafrænnar tónlistar hefur hins vegar aukist sífellt allar götur síðan 2003, og aukningin síðastliðið ár var 9% sem er nægileg til að yfirvinna samdrátt í sölu raun eintaka.

Veiturnar skipta miklu

Alls nam sala á stafrænni tónlist $5,6 milljörðum, og munar þar mest um vaxandi útbreiðslu streymiveitna á borð við Spotify, Rdio og Pandora sem hafa notið töluverðra vinsælda beggja megin við Atlantshafið.  Fyrir tveimur árum voru stærstu veiturnar í boði í um 20 löndum, en í dag nær þjónusta þeirra til meira en 100 landa. Fjöldi áskrifenda að slíkum veitum hefur jafnfram aukist um 44% undanfarið ár og er nú um 20 milljónir, og nema áskriftartekjur nú fullum 10% af heildarsölu tónlistar í heiminum. Hjá frændum okkar í Noregi jókst sala tónlistar um 7% á síðasliðnu ári, og má rekja þá hækkun nær eingöngu til áskrifta að veituþjónustum.

Þetta eru vissulega vísbendingar um að bjartari tímar séu framundan fyrir tónlistarútgefendur. Í skýrslunni kemur fram að hlustun á tónlist um netið hefur náð talsverðri fótfestu, en í viðamikilli könnun sem rannsóknarfyrirtækið Ipsos MediaCT framkvæmdi nýlega kom fram að 62% internetnotenda hafði streymt tónlist frá veitufyrirtæki á undanförnum sex mánuðum. Í aldursflokknum 16-24 ára var sú tala 81%. Á sama tíma benda aðrar rannsóknir sterklega til að ólöglegt niðurhal á tónlist hafi dregist verulega saman. Rannsóknarfyrirtækið NPD birti nýlegar niðurstöður sem sýndu að ólöglegt niðurhal í Bandaríkjunum hafði dregist saman um 17% á milli ára í Bandaríkjunum, og hafi raunar verið á stöðugu undanhaldi frá því 2005.

Frances Moore, talsmaður IFPI segir að öðru fremur sýni þessar tölur að tónlistarbransinn hafi lært að nota netið og mæta þörfum viðskiptavinarins. Það er margt til í þessum orðum. Einn helsti kostur þess að hala nður tónlist af netinu hefur einmitt verið að það hefur fram til þessa verið einfaldara og þægilegra í notkun en aðrir valkostir. Í samanburði við streymiveiturnar er það hins vegar hin mesta plága, og nær öruggt að flestir munu kjósa að greiða áskrift þegar fram í sækir, fremur en að hala tónlist niður af netinu. Og því hefur nú kviknað von í brjóstum tónlistarútgefenda aftur. Það er nefnilega alls ekki víst að fólk sé hætt að vilja borga fyrir að njóta tónlistar.

Birtist fyrst í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, 3. mars 2013.
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s