Ljúktu upp leyndardómum Google Chrome

Skjáskot af Chrome vafra
Skjáskot af Chrome

Vinsælasti vafri heims er Google Chrome, en talið er að á bilinu 30-40% heimsbyggðarinnar noti hann að jafnaði til að skoða netið. Samkvæmt tölum Modernus fyrir árið 2012 er hann jafnframt vinsælasti vafrinn hér á Íslandi, með rúmlega 30% af allri netnotkun landsins. Vinsældir Chrome byggja ekki síst á því hve auðvelt það er að breyta honum og aðlaga að eigin þörfum, bæði með ýmis konar viðbótum, eða öðrum ráðum sem gera vefrápið auðveldara. Í ljósi vinsælda Google Chrome er því ekki úr vegi að líta á nokkrar sniðugar viðbætur og ráð sem hjálpa okkur að skoða netið. Margar þeirra viðbóta sem hér verða nefndar er einnig hægt að fá fyrir aðra vafra, ekki síst Firefox, ef menn hafa áhuga á því. 

Hvernig á að virkja viðbætur í vafra?

Viðbætur (extensions) má finna í vefverslun Chrome (Chrome Web Store). Það er jafnan auðvelt að finna hlekk sem vísar þangað þegar þú opnar nýjan flipa í Chrome. Í vefverslun Chrome má finna mikinn fjölda af viðbótum og þemum (themes) sem breyta útliti og litum vafrans. Þegar þú hefur fundið viðbót sem þú vilt prófa geturðu virkjað hana með einum smelli á uppsetningahnappinn (Install). Það er hægt er að stjórna og  fjarlægja viðbætur undir tóla valmyndinni (tools) í stjónborðinu.

Stofnaðu notanda

Google Chrome býður þér upp á stofna notandareikning (gegnum Gmail tölvupóstfang). Sá möguleiki gerir þér kleift að vera sjálfkrafa skráður inn á öllum þjónustum Google, svo sem tölvupósti, Youtube og dagatali. Þá gerir það þér einnig kleift að samhæfa vafrann þinn á mörgum vélum svo allar breytingar sem þú gerir á vafranum elta þig, til dæmis frá vinnuvélinni og heim. Þá gerir það þér einnig kleift að sjá hvað síður þú ert með opnar annars staðar, og fá síðurnar sem þú skoðar beint í símann, svo eitthvað sé nefnt.

Hugaðu að útlitinu

Það er hægt að fá mörg þemu fyrir Google Chrome. Þau breyta útliti vafrans, bæði lit og bakgrunn. Hægt er að fá þemu sem byggja á litum, merkjum og myndum frá vinsælum íþróttaliðum, fatamerkjum, bílategundum, og öðru sem fólk getur hugsað sér að merkja sig með. Þá má einnig fá einfaldari þemu sem breyta einungis litasamsetningu. Sjálfur kýs ég að nota svart viðmót á mínum vafra. Þemun má finna í vefverslun Chrome.

Aldrei gleyma lykilorði

Google Chrome býður þér að muna bæði notendanafn og lykilorð á síðum þar sem þú þarft að skrá þig inn á. Og ef þú samhæfir vafrann á ólíkum vélum í gegnum notandareikning, þá eru þær upplýsingar alltaf fyrir hendi. Að öðrum kosti er hægt að nota LastPass viðbótina, sem er raunar fáanleg í nær öll tæki, vafra og síma, ef því er að skipta. Með því að nota Last Pass þarftu aldrei að muna nema eitt lykilorð. LastPass sér um að geyma notendanöfn og lykilorð fyrir þig, og ef þú vilt fyllir það þessa reiti út sjálfkrafa þegar þess er krafist. Þú getur einnig látið LastPass útbúa tilviljunarkennd lykilorð fyrir þig sem ómögulegt er að giska á. Það er þó ekki mælt með því að láta LastPass fylla sjálfkrafa inn lykilorð á síðum sem innihalda viðkvæmar upplýsingar eins og netbanka eða tölvupóst, þó það sé kjörið að láta viðbótina halda utan um þau. 

Taktu skjáskot

Skjáskot geta verið bæði skemmtileg og gagnleg. Oft rekst maður á eitthvað sem maður vill gjarnan geyma og geta vísað til síðar, eða kannski bara senda á Flick My Life. Og það er ótrúlega þægilegt að taka skjáskot af verkefni sem verið er að vinna með öðrum, og skrifa inn á það hugleiðingar. Awesome Screenshot er viðbót sem býður upp á að taka myndir af þeirri síðu sem þú ert með opna í vafranum. Hægt er að velja að taka mynd af því sem er á skjánum, allri síðunni, eða bara afmörkuðum hluta. Hægt er að skrifa og teikna á myndina og einfalt að vista hana og deila með öðrum.

Notaðu teiknibólur

Það er hægt að nota teiknibólur (pin tab) til að festa ákveðna síður í flipa í vafranum með því að hægri smella á titiil flipans í vafranum. Þegar vafrinn er opnaður, opnast þessir flipar sjálfkrafa, og auðvelt er að ganga að þeim að vísum stað. Þetta er mjög þægilegt fyrir vefsíður sem eru oft heimsóttar, svo sem tölvupóst og fréttasíður.

Sparaðu minnið

Ef þú ert eins og ég, þá ertu iðulega með fjöldann allan af opnum flipum í vafranum þínum. Þér finnst gott að hafa margar síður opnar í einu og þarft oft að skipta á milli. Vandamálið vð þetta er að þeir flipar sem ekki eru í notkun binda mikið af vinnsluminni, sem gerir aðra vinnslu vélarinnar hægari. Stærsta umkvörtunarefni þeirra sem nota Chrome er jú einmitt að hann er frekur til minnisins. Við þessu er ráð. Tvær ágætar viðbætur við Chrome heita OneTab og The Great Suspender. Með OneTab er með hnappi hægt að breya öllum opnum flipum í eina síðu með lista af hlekkjum á þær síður sem voru opnar. Þegar þú smellir á hlekk opnast síðan svo aftur og hverfur af listanum. Þetta sparar umtalsvert minni og er mjög þægileg leið til að halda utan um opnar síður. The Great Suspender virkar aftur á móti þannig að þegar smellt er á hnapp á opnum flipa, hættir Chrome að eyða minni í að viðhalda því sem á síðunni er og tæmir flipann. Til þess að fá efnið aftur þarftu að endurhlaða efni síðunnar. Þetta sparar einnig talsvert pláss og hjálpar til við að halda utanum opna flipa sem þú vilt hugsanlega skoða síðar.

Hola

Hola er þægleg viðbót sem opnar fyrir landluktar sjónvarpsveitur á netinu. Með því að nota Hola getur þú til dæmis horft á efni af BBC og ITV, sem lokað er fyrir utan Bretlandseyja, eða netútsendingar frá FOX og CBS. Þá opnar Hula einnig fyrir Pandora, Netflix og Hulu, svo eitthvað sé nefnt.

Notaðu sérhæfða opnunarsíðu

Hægt er að útbúa sérhæfðar opnunarsíður í Chrome, sem birtist í hvert skipti sem nýr flipi er opnaður. Þar er hægt að velja að hafa þær síður sem þú notar oftast og stytta sér leð að þeim með hlekk og mynd af síðunni. Þá er hægt að bæta bókamerkjastikunni í opnunarsíðuna, og velja ýmis smáforit, svo sem leiki eða flýtileiðir á vinsælar síður tið að hafa innan handar þegar nýr flipi opnast.

Geymdu lesturinn þar til síðar

Ef þú notar Instapaper eða Pocket í snjallsíma til þess að vista og lesa seinna langar og áhugaverðar greinar sem þú finnur á netinu, er hægt að fá viðbót fyrir bæði þessi smáforrit, svo hægt er að smella á einn hnapp í vafranum tll vista greinina sjálfkrafa í þessum þjónustum.

Birtist fyrst í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s