Stattu við áramótaheitið með aðstoð símans

Runkeeper
Það eru margir sem nýta sér tímamót á borð við þau sem nú hafa um garð gengið til að strengja heit um nýtt líferni og betri daga. En eins og oft vill verða um góðar fyrirætlanir, þá getur reynst erfitt að fylgja slíkum heitum eftir. Fólk fer gjarnan vel af stað, en svo dvínar áhuginn þegar fram í sækir og það getur verið erfitt að finna innlblásturinn þegar komið er fram á vorið. En örvæntið ekki, því nú er hægt að nota snjallsímann til þess að bæði minna á og hvetja til dáða þegar hvað verst gengur. Hér eru nokkur ókeypis símaforrit sem hjálpa þer að standa við áramótaheitið.

Mættu í ræktina

Fyrir þau ykkar sem eru staðráðin í að mæta reglulega í ræktina á nýju ári gæti Gympact verið hvatningin sem á þarf að halda. Forritið virkar þannig að notandinn gerir samning við sjálfan sig um að mæta ákveðið oft í viku í ræktina og ákveður hve háa upphæð hann er tilbúinn að borga í sekt fyrir að mæta ekki. Þegar notandi mætir í ræktina stimplar hann sig inn í gegnum forritið. Ef notandinn stendur ekki við að mæta á tilskildum dögum greiðir hann sekt fyrir hvern dag sem sleppt er úr. Sektarféi allra notenda er svo safnað saman í pott sem er skipt vikulega á milli þeirra notenda sem mæta samkvæmt samningnum. Þannig hefurðu beinan fjárhagslegan ávinning af því að mæta í ræktina. Það er rétt að taka fram að hægt er að segja upp samningnum hvenær sem er, eða breyta upphæð og æfingafjölda eftir þörfum. Fitocracy er annað sniðugt forrit sem tengir þig við samfélag fólks sem hefur svipuð áhugamál og markmið með æfingum sínum og þú. Hægt er að tengjast samfélagi ólíkra æfingahópa og ræða um æfingar og fá stuðning frá öðrum notendum.

Byrjaðu að hlaupa

Margir ætla sér að byrja að hlaupa á nýju ári, enda er það holl og skemmtileg hreyfing sem hægt er að stunda hvar og hvenær sem er. Runkeeper er eitt vinsælasta símaforritið á markaðnum fyrir hlaupafólk, jafnt byrjendur sem lengra komna. Forritið tekur saman æfingar, mælir vegalengdir, hraða, árangur og hlaupaleiðir og er með innbyggðum æfingaráætlunum sem hjálpa þér af stað og koma þér í form. Það er auðvelt að setja sér markmið og fylgja þeim eftir með aðstoð forritsins, það er hægt að láta það minna sig á að halda áætlun og auðvelt að tengjast öðrum notendum og vinum sem fylgjast með árangrinum með þér og styðja við bakið á þér. Forritið er fáanlegt í bæði iPhone og Android. Sambærileg forrit sem hægt er að mæla með eru Endomondo og Nike+.

Náðu stjórn á fjármálunum

Meniga er íslenskt forrit sem hjálpar þér að ná stjórn á fjármálunum. Forritið tengist bankareikningum heimilisins og veitir góða yfirsýn yfir fjárhagsstöðuna hverju sinni. Það má með auðveldum hætti greina í hvað peningunum er varið með skýrum myndrænum hætti. Hægt er að setja viðmið fyrir hve miklu skal varið í ákveðna útgjaldaliði og fá áminningar þegar þau mörk nálgast. Þá má fá hagnýt sparnaðarráð og sjá hvernig eyðslumynstur þitt er miðað við aðra notendur Meniga. Ef áramótaheitið er að ná betri stjórn á fjármálunum er meninga ágætt fyrsta skref.

Leggðu af

Vissulega getur það verið bæði erfitt og leiðinlegt að halda í við sig í mat eftir desemberveislurnar, en með Dietbet er hægt að breyta því í leik. Líkt og Gympact, þá býður Dietbet þér beinan fjárhagslegan ávinning af því að ná markmiðum þínum. Dietbet býður þér að keppa við aðra notendur forritsins. Þú ákveður hvað þú vilt leggja mikið undir. Ef annar eða aðrir notendur er tilbúnir að keppa við þig um þá upphæð, þá hafið þið 28 daga til að minnka líkamsþyngd um 4%. Ef það tekst vinnurðu peningana, ef ekki þá taparðu. Forritið býður þér upp á að deila myndum af árangrinum, matnum, eða úr ræktinni, ásamt því að fá stuðning frá vinum. Lose it er annað app sem er hægt að nota til að skrá og greina inntöku á hitaeiningum, setja sér markmið, gera áætlanir. tengjast samfélagi fólks með svipuð markmið og ræða vandamál og sigra.

Náðu tökum á verkefnalistanum

Það er til mikill fjöldi af forritum til að halda utan um verkefnalista fyrir snjallsíma. Aðalatriðið er að velja eitt og halda sig við það. Any.do er mjög einfalt og þægilegt forrit sem má samstilla á milli síma og tölvu. Notendaviðmótið er þægilegt og hægt er að flokka verkefni, deila þeim og skipta niður í hluta. Önnur sambærileg forrit sem hægt er að mæla með eru Workflowy, Rember the Milk, Wunderlist og Astrid. Samhliða því sem teknir eru upp verkefnalistar er hægt að nota tækifærið og prófa sig áfram með tímastjórnunar forrit líkt og þau sem byggja á Pomodoro tækninni, en talsvert úrval er af þeim í flesta snjallsíma.

Hættu að reykja

Áramótin eru frábær tími til að hætta að reykja. Mörg smáforrit eru fáanleg sem hjálpa til við það göfuga markmið. Quit It er þægilegt forrit sem fylgist með því hve langur tími er liðinn frá því að þú hættir, hve margar sígarettur þú hefur sleppt að reykja á þeim tíma, og hve mikinn pening þú hefur sparað á því. Það sýnir þér einnig á myndrænan hátt hvaða ávinning það hefur haft fyrir heilsuna, svo sem, hve mikið hefur dregið úr líkum á reykingatengdum sjúkdómum.

Lærðu nýja hluti

Snapguide er lítið forrit sem hjálpar notendum að útbúa eða nálgast einfaldar leiðbeiningar um hvernig á að leysa verkefni, hvort sem það er að baka köku eða skipta um kerti í bílnum. Notendur geta bæði útbúið og deilt leiðbeiningum um hluti sem þeir eru vel að sér um, eða nálgast leiðbeiningar um þá hluti sem þeir vilja læra. Þetta er tilvalið fyrir fólk sem vill taka áskorun á nýju ári og læra nýja hluti. Ef þú hefur áhuga á annars konar andlegri áskorun má mæla með að skoða Khan Academy forritið, sem hjálpar þér við að læra ýmis konar raunvísindi.

Skapaðu nýjar venjur

Einfaldasta forritið sem hægt er að nýta sér er þó mögulega Way of Life sem gerir þér kleift að merkja með einföldum hætti hvort þú hefur staðið við markmið þín þann daginn. Forritið býður þér svo upp á ýmis konar myndræna framsetningu á því hvernig þér gengur að skapa þér nýjar venjur.

Birtist upphaflega í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í janúar 2013.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s