Sjónvarpið leyst úr viðjum tímans

Kevin Spacey fer á kostum í hlutverki Francis Underwood í þáttunum House of Cards.
Kevin Spacey fer á kostum í hlutverki Francis Underwood í þáttunum House of Cards.

Bandaríska VOD-síðan (Video On Demand) Netflix, reynir nú að bylta því hvernig við horfum á sjónvarp. Fyrirtækið hefur nú hafið sýningar þáttaraðar sem frumsýnd er á síðunni, en ekki á hefðbundnum sjónvarpsrásum líkt og tíðkast hefur.

House of Cards eru stórvirki í þáttagerð. Með aðalhlutverk fara Óskarsverðlaunahafinn Kevin Spacey (The Usual Suspects, American Beauty) og Robin Penn (Forrest Gump, The Girl With the Dragon Tattoo). Leikstjórn er í höndum reynslubolta úr Hollywood á borð við David Fincher (Se7en, Fight Club, The Social Network) og Joel Schumacher (Batman Forever, 8mm). Handrit þáttanna byggir á skáldsögu eftir breska rithöfundinn Michael Dobbs, en áður hefði BBC gert sjónvarpsþætti eftir sömu bók.

Þættirnir fjalla um stjórnmálamanninn Francis Underwood, sem er háttsettur þingmaður í Bandaríska þinginu. Þegar hann fær ekki ráðherraembætti sem hann taldi sig eiga víst, hefst spennandi flétta pólitísks valdatafls, sem teygir anga sína um þingsali á Capitol Hill og alla leið inn á ganga Hvíta hússins. Alls eru þréttán þættir í þessari þáttaröð, sem ber öll einkenni gæðasjónvarpsefnis, nema eitt. Þættirnir eru ekki sýndir í sjónvarpi.

Það er fyrirtækið Netflix sem framleiðir og “sýnir” þættina, en á samnefndri vefsíðu er hægt að streyma myndefni yfir netið, bæði kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, gegn föstu mánaðargjaldi ($8). Fram að þessu hefur síðan einungis boðið upp á efni sem áður hefur verið sýnt í kvikmyndahúsum eða í sjónvarpi, en nú verður breyting þar á. Alls hefur Netflix varið $100 miljónum í gerð þáttanna, sem þeir vonast til að laði nýja áskrifendur að síðunni og gjörbreyti því hvernig áhorfendur horfa á hefðbundið sjónvarpsefni. Allir þréttán þættirnir voru fáanlegir samdægurs, og áhorfendum í sjálfsvald sett hvenær þeir horfa á þættina og hve marga í þætti þeir horfa á í einu. Nú þarf enginn að haga frístundum sínum eftir sjónvarpsdaskránni, því á Netflix ertu þinn eigin sjónvarpsstjóri.

Það virðist sem þessi tilraun Netflix ætli að skila árangri. Mikið hefur verið fjallað um House of Cards í amerískum fjölmiðlum, og hafa þættirnir fengið lof gagnrýnenda og mikið áhorf. Svo mikið raunar, að þegar hefur verið lagt á ráðin um að gera aðra þáttaröð upp á þréttán þætti til viðbótar. Áður hafði Netflix reynt fyrir sér með þetta módel í samvinnu við norska ríkissjónvarpið, en samvinna þeirra gat af sér þættina LilyHammer, sem nú eru sýndir á RÚV. Líkt og House of Cards, voru allir þættirnir af Lilyhammer fáanlegir samdægurs í gegnum Netflix í Bandaríkjunum, en þeir höfðu þá þegar verið sýndir í norska sjónvarpinu. Netflix hyggur á frekari framleiðslu efnis, en fyrirtækið hefur tryggt sér réttinn til að gera eina þáttaröð í viðbót af hinum gríðarlega vinsælu þáttum Arrested Development, sem sýndir verða í sumar, og víst að margir bíða spenntir eftir. Þá eru í bígerð ný gamanþáttaröð frá grínisanum Ricky Gervais (The Office, Extras), hrollvekuþættir frá hryllingsmeistaranum og Íslandsvininum Eli Roth og nýjir þættir um lífið í kvennafangelsi frá Jenji Kohan, sem er þekktur fyrir hina vinsælu Weeds þætti.

Forsvarsmenn Netflix hafa sagt í viðtölum við fjölmiðla að þeir ætli sér að verða samkeppnisaðili HBO kapalstöðvarinnar, sem er einn helsti framleiðandi hágæðasjónvarpsefnis í Bandaríkjunum. „Við ætlum okkur að verða HBO, áður en HBO verður Netflix“ segir Ted Sarandos, stjórnandi dagskrárdeildar Netflix í viðtali í nýjasta tölublaði GQ tímaritsins. Hann segir að fyrirtækið ætli sér að vera leiðandi í gerð hágæða þátta, og hefur vonast eftir því að fá til liðs við sig þáttastjórnendur sem séu óhræddir við að leika sér með formið. Hann tekur sérstaklega fram að Netflix sjái enga ástæðu til þess að fylgja hinni víðteknu hefð bandarískra sjónvarsprása að efni sé framleitt í tveimur lengdum, 22 mínútur (hálftími með auglýsignum) og 45 mínútur (klukkutími með auglýsingum), þar sem dagskrá Netflix þurfi alls ekki að lúta að úreltum lögmálum sjónvarpsdagskrárinnar.

Netflix leggur gríðarlega mikið undir í þessari innrás sinni á sjónvarpsmarkaðinn, en fyrirtækið ætlar sér að framleiða efni fyrir um $300 milljónir á þessu ári. Sumir keppinautar fyrirtækisins hafa látið í ljós efasemdir um að tekjumódel Netflix standi undir slíkri fjárfestingu. En ef áætlanir Netflix ganga upp er ekki ólíklegt að sjónvarpsstöðvar verði að bregðast við þeirri þróun með einhverjum breytingum á sýningartímum sínum. En jafn skrýtið og það kann að hljóma, þá er það líklega Internetið, sem Neflix byggir tilveru sína á, sem kann að vera helsta ástæðan fyrir því að sjónvarpsstöðvar sjái sér hag í að halda sem fastast í hið gamla módel. Ástæðan er sú gríðarlega umfjöllun sem sjónvarpsefni skapar á samfélagsmiðlum. Í dag er erfitt að sjá sjónvarpsþætti ekki á sama tíma og allir hinir, án þess að vera fyrir löngu búinn að frétta hvað gerðist í þættinum. Þetta veit enginn betur en undirritaður sem óvart las sér til um endalok Lost áður en honum gafst færi á að sjá þáttnn.

Birtist upprunalega í sunnudagsblaði Morgunblaðsins, 9 febrúar, 2013.
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s