Hvað gerist 2013

Í upphafi árs er forvitnilegt að gægast aðeins inn í framtíðina, og velta fyrir sér hvaða tækninýjungar kunni að líta dagsins ljós á nýju ári og hvað er líklegt að verði vinsælustu græjur ársins. Tæknibloggarar hafa verið ófeimnir við að sýna spádómsgáfur sínar undanfarnar vikur og nú er ný afstaðin CES  2013 (Consumer Electronics Show), sem er stærsta árlega raftækjasýningin fyrir neytendur,  þar sem flest stærstu tæknifyrirtæki heims sýna hvers er að vænta frá þeim á árinu. Það er því af nógu að taka.

iPhone 6 og annað nýtt frá Cupertino
Klukkan hafði vart slegið miðnætti á gamlárskvöld þegar spekingarnir á vefnum The Next Web greindu frá því að þeir hefðu orðið varir við torkennilega umferð í skráningaupplýsingum vefsins, en helstu greiningartól skrá hvernig tæki og stýrikerfi er verið að nota til að skoða vefi. Þetta áður óþekkta stýrikerfi var snjallsímakerfi sem var keyrt á áður óþekktu símtæki, og IP tala notendans kom heim og saman við höfuðstöðvar Apple í Cupertino í Kaliforníu. Þetta telja margir vera ansi sterka vísbendingu um að Apple sé komið langt með þróun iOS 7 og iPhone 6 og bæði munu líta dagsins ljós í sumar.

Sérfræðingar Wall Street Journal telja að Apple sé að þróa ódýrari útgáfu af iPhone, sem verði fáanleg í ár. Undirritaður er vantrúaður á þá spá, en slíkur sími hefur lengi verið á markaðnum og kallast iPhone 3s. Aðrir spá því að nýtt útlit iPhone verði í líkingu við nýjan iPad touch sem kom á markað fyrir jólin, en hann er fáanlegu í mörgum litum í stað svarts og hvíts sem hafa fram til þessa verið einu fáanlegu litirnir á iPhone. Þá verður að teljast líklegt að nýr iPad mini með Retina skjá verði fáanlegur eftir miklar vinsældir tækisins.


Tónlist verður aftur söluvara
Síðasta vika 2012 var sú besta í sögu sölu á stafrænni tónlist í Bandaríkjunum og það ríkir bjartsýni á sölu stafrænnar tónlistar. Í Bandaríkjunum hafa samtök hljómplötuútgefanda, (IFPI) nýlega tilkynnt að árið 2011 var fyrsta árið sem sala á tónlist jókst á milli ára. I dag er sala á stafrænni tónlist 32% af allri tónlistarsölu í Bandaríkjunum. Með fjölda aðgengilegra þjónusta á borð við iTunes og Google Music og streymiþjónusta líkt og Rdio, Spotify, Pandora, að ógleymdum þjónustum á borð við tonlist.is og Gogoyoko.com hefur tekist að snúa vörn í sókn. Samkvæmt sænskri rannsókn dróg úr ólöglegu niðurhali á tónlist um 25% eftir að Spotify opnaði þar í landi. Það er ólíklegt að tónlistariðnaðurinn nái nokkurn tíma fyrri hæðum, en það er líklegt að árið 2013 verði minnst sem ársins sem flóðbylgjan sem kaffærði tónlistariðnaðinn byrjaði að fjara út aftur.

Verður Pebble tískuvara ársins  2013?
Eitt sinn var vatnshelt Casio tölvuúr með skeiðklukku það flottasta sem hægt var að hugsa sér. Síðan þá hefur grátlega lítið gerst í þróun tölvuúra. Það kynni að breytast í ár. Pebble setti met á síðasta ári sem best heppnaða Kickstarter verkefnið fram til þessa. Kickstarter er vefsíða þar sem framleiðendum gefst kostur á að forselja vöru sem er á hugmyndastigi, og afla þannig peninga til framleiðslunnar. Upprunalega óskaði eitaði Pebble eftir því að safna $100,000 til að framleiða 1000 úr. Niðurstaðan varð hins vegar að sú að þeir söfnuðu yfir $10 milljónum og forseldu rúmlega 85,000 úr. Pebble er snjallúr sem samstillir sig snjallsímum og birtir meðal annars skilaboð, tölvupóst og upplýsingar um hver hringir og annað smávægilegt á skjánum. Þá er hægt að nota það til að stjórna tónlistarspilara og annað smávægilegt, og er búist við að framleiðendur eigi eftir að finna ýmsa notkunarmöguleika sem engum hefur enn dottið í hug áður en langt um líður. Úrið er með e-ink skjá, sem er vel læsilegur í sólarljósi, Bluetooth 4 og sjö daga rafhlöðuendingu.

Chromebook vinnur á
Þriðja kynslóðin af Chromebook hefur náð að vinna marga gagnrýnendur á sitt band. Chromebook er mjög einföld fartölva sem keyrir á Chrome stýrikerfi Google sem byggir á Linux. Það má segja að þetta sé einhvers konar millistig á milli fullbúiinnar fartölvu og spjaldtölvu. Vélin miðar við að öll vinnsla fari fram á netinu, í gegnum Google Chrome vafrann, og smáforritum á borð við þau sem við þekkjum úr símum. Chromebook er lítil og létt og mjög ódýr og hentar frábærlega fyrir skólafólk sem önnur vél fyrir heimili, sérstklega ef hægt er að nota hana eingöngu fyrir vefráp, og létta vinnslu í gegnum vefinn, svo sem skjalavinnslu Google. Hún hentar hins vegar ekki til þess að geyma á henni mikið af gögnum, vinna myndir, eða þung vinnuskjöl.

Risarnir fjárfesta í sjálfum sér
Einkaleyfastríðið sem hefur geysað á milli Samsung, Apple og Google verður til þess að þessi fyrirtæki munu reyna að minnka þörf sína hvert fyrir annað. Samsung hefur fram til þessa verið helsti framleiðandi örgjörva í Apple tæki, á meðan þau hafa háð blóðuga baráttu um einkaleyfi á hönnun og hugbúnaði. Samsung hefur aftur á mót átt stóran hluta sinnar velgengni að þakka Android sem er í eigu Google, og velgengni þessa samstarfs hefur átt stóran þátt í að gera Android stýrikerfið það mest notaða í heiminum. Það má teljast líklegt að þessi fyrirtæki, sem eru með þeim stærstu í heimi, muni reyni að draga úr þörf sinni hvert fyrir annað. Apple mun væntanlega leita á önnur mið með örgjörva, og hugsanlega kaupa sig inn í önnur framleiðslufyrirtæki. Google mun efla samstarf við aðra tækjaframleiðendur til að draga úr áhrifum Samsung, og Samsung mun jafnvel bjóða upp á fleiri stýrikerfi en Android á vörum sínum.

Birtist fyrst í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, 13. janúar, 2013. 

Auglýsingar

3 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s