Glæpur og refsing

Fráfall Aaron Swartz vekur spurningar um löggjöf um tölvuglæpi.

Aaron Swartz var undrabarn í netheimum. 14 ára gamall spilaði hann lykilhlutverk í þróun RSS staðalsins. Hann kom einnig að gerð Creative Commons notkunarskilmálanna og opna gagnasafnsins Archive.org. Þegar hann var 19 ára gamall var hann einn af stofnendum Redditt, sem er eitt víðlesnasta vefsvæði heimsins. Hann var 26 ára gamall þegar hann féll fyrir eigin hendi þann 11. janúar síðastliðinn.

Sjálfsmorð Aaron Swartz hefur vakið mikla athygli í fjölmiðlum vestanhafs, ekki síst þar sem það er talið tengjast dómsmáli sem hann átti yfir höfði sér að undirlagi MIT háskóla, fyrir tölvuglæpi. Vitað er að Swartz þjáðist af þunglyndi, en flestir sem til hans þekktu telja að áðurnefnt dómsmál hafi vegið þungt í ákvörðun Swartz um að binda enda á eigið líf. MIT háskóli og embætti saksóknara í Bandaríkjunum hafa verið harðlega gagnrýndi í kjölfar þessa atburðar og hefur þess verið krafist að löggjöf í Bandaríkjunum um netglæpi og meðferð slíkra mála verði endurskoðuð.

Swartz átti yfir höfði sér allt að 35 ára fangelsisvist og milljónir dollara í sektargreiðslur, yrði hann sakfelldur fyrir alla 14 liði ákæru um stórfellda netglæpi og gagnastuld. Réttarhöldin áttu að fara fram nú í apríl. Forsaga málsins er sú að á tímabilinu frá desember 2010 til janúar 2011 sótti Swartz tæplega fimm milljón greinar í fræðigreinasafnið JSTOR í gegnum net MIT háskóla, mögulega með það að markmiði að gera þær aðgengilegar án endurgjalds.

JSTOR er eitt stærsta fræðigreinasafn heims þar sem nálgast má gegn gjaldi greinar úr rúmlega 1400 vísindaritum í ólíkum fögum. Fjöldi háskóla og stofnanna víða um heim greiðir áskrift fyrir aðgang að safninu fyrir nemendur og fræðimenn, þar á meðal MIT háskóli, sem veitir öllum sem hafa aðgang að MIT netinu óheftan aðgang að JSTOR. Swartz var á þessum tíma starfsmaður Harvard háskóla og nýtti sér aðgang að neti MIT sem hann fékk í gegnum bókasafn við skólann til þess að skrifa lítið forrit sem sótti greinar í safnið og færði þær á fartölvu hans. Þegar lokað var á gestaaðgang hans bjó hann til nýjan og hélt áfram.

Swartz var mikill baráttumaður fyrir því að upplýsingar og gögn ættu að vera aðgengileg almenningi og tók virkan þátt í samfélagi hakkara og aðgerðasinna sem berjast fyrir því að “frelsa” opinber gögn sem þau telja eiga vera opin, en lokuð eru almenningi með einhvers konar aðgangshindrunum. Margir telja líklegt að aðgerð Swartz hafi tengst þessu baráttumáli hans. JSTOR, fyrir sitt leyti, tilkynnti strax að það myndi ekki leita eftir því að Swartz yrði kærður, enda er gagnasafnið ekki rekið í gróðaskyni. MIT háskóli fylgdi ekki því fordæmi, og fyrir vikið tóku saksóknarar ríkisins málið að sér og kærðu Swartz fyrir stórfellda netglæpi og gagnstuld í fjórtán liðum og sóttust eftir hámarksrefsingu.

Mörgum þeim sem tjáð hafa sig um málið þykir sem hér hafi lítið samræmi verið á milli hins eiginlega glæps og mögulegrar refsingar. Swartz var kærður fyrir brot á ákvæðum laga sem kallast Computer Fraud and Abuse Act (CFAA). Lögin voru sett árið 1986 í því skyni að lögsækja hakkara fyrir að brjótast inn í tölvukerfi til að stela viðkvæmum upplýsingum eða vinna skemmdarverk. Lögin hafa lítið verið endurskoðuð síðan og þykja ekki henta hinum nettengda heimi sem við búum við í dag. Þau veita saksóknaraembætti mjög víðfeðmar heimildir til lögsóknar, til dæmis í krafti þess að brjóta notendaskilmála vefþjónustu á borð við JSTOR eða vefsíðna á borð við Myspace.

Það er erfitt að sjá hver var fórnarlamb glæpa Swartz. Hann notfærði sér opinn aðgang að þjónustu JSTOR og neti MIT. Hann “hakkaði” sig hvorki inn á net MIT eða þjónustu JSTOR, né reyndi hann að fela slóð sína með nokkrum hætti. Þá verður ekki séð að neinn hafi hlotið skaða af, hvorki líkamlega né fjárhagslega, og JSTOR kaus að kæra hann ekki fyrir uppátækið. Hafa verður í huga að greinarnar sem Swartz sótti voru aldrei birtar annars staðar, og þó til þess hefði komið, væri það brot á höfundaréttarlögum, en ekki CFAA löggjöfinni. Þegar upp var staðið viðist sem glæpur Swartz hafi fyrst og fremst falist í því að brjóta gegn notendaskilmálum MIT netsins, sem banna notendum að sækja fjölda greina með aðstoð forrita. Flestir eiga erfitt með að skilja hvernig slíkt afbrot geti kallað á 35 ára refsivist.

Eftir að sjálfsmorð Swartz komst í hámæli hafa margir fjölmiðlamenn vestanhafs gert því skóna að saksóknarinn sem sótti mál hans hafi ætlað sér að gera málið að fordæmi, hökkurum til varnaðar. Ákæruliðir og refsirammi hafi því verið langt umfram það sem afbrotið gaf tilefni til. Þetta hefur vakið talsverða reiði í samfélagi netáhugamanna vestanhafs, og hafa tæplega 30.000 manns sett nafn sitt við undirskriftarsöfnun á vef Hvíta hússins, en taka þarf afstöðu til slíkrar söfnunnar ef 25.000 nöfn nást. Margir hafa einnig gagnrýnt þátt MIT háskóla í þessu ferli, en háskólinn mun hafa neitað að ræða dómssátt í málinu nema gegn því að Swartz sæti að lágmarki hálft ár í fangelsi. Háskólinn hefur tilkynnt að innri rannsókn muni fara fram á þætti hans í málinu.

Það er erfitt að fullyrða að dómsmálið eitt og sér hafi verið þess valdandi að Swartz ákvað að binda enda á líf sitt. Foreldrar hans, sambýliskona og samstarfsmenn fullyrða þó að það hafi haft gríðarlega mikil áhrif á hann og viðkvæmt sálarlíf hans. Lawrence Lessig, lagaprófessor við Harvard háskóla, einn virtasti fræðimaður á sviði höfundaréttar og einn nánasti samstarfsmaður Swartz í baráttunni fyrir fríum gögnum, hefur sagt að Swartz hafi verið fórnarlamb eineltis af hálfu stjórnvalda og líkt og mörg önnur fórnarlömb eineltis hafi hann gefist upp fyrir kvalara sínum með þessum hætti.

Þrátt fyrir ungan aldur hafði Swartz markað djúp spor í sögu hins unga Internets. Það er alltaf sorglegt að horfa á eftir ungu fólki í blóma lífsins falla frá, en það er ljóst að Swartz á eftir að lifa lengi í hugum baráttumanna fyrir opnu og betra samfélagi. Ef hægt er að vonast eftir að eitthvað gott hljótist af þessum sorglega atburði er það að sú löggjöf og sá refsirammi sem ná til Internetsins verði endurskoðuð. Víst er að vinir og samstarfsmenn Swartz munu berjast fyrir því máli um ókomna framtíð.

Birtist fyrst í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, 20. janúar, 2013.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s