Leitaðu betur!

Flest notum við leitarvélina Google daglega. Fæst áttum við okkur hins vegar á því að möguleikar Google eru talsvert meiri en bara að slá inn einfalt leitarorð, og vona svo það besta. Það er hægt að nota vefsíðu Google til þess að fá fram sérsniðnar leitarniðurstöður þegar verið er að leita. Það er líka bara hægt að nota Google til að fá upplýsingar um veðrið.

Nokkrar grunnreglur
Notaðu einföld orð sem líklegt er að notuð væri um það sem þú ert að leita að. Ekki nota leitarstrenginn: Mér er illt í maganum þegar þú borðar yfir þig um jólin, notaðu frekar ógleði eða annað leitarorð sem líklegt er að komi fyrir á síðum sem bjóða upp á lausnir við slíku. Notaðu fleiri en eitt orð til að fækka niðurstöðum. Ef notuð eru fleiri en eitt leitarorð skilar Google einungis niðurstöðum þar sem bæði orðin koma fyrir.

Notaðu gæsalappir til að afmarka orðasambönd
Ef þú ert að leita að ákveðnu nafni, eða orðasambandi, þá er hægt að setja nafnið (eða leitarstreng) í gæsalappir, og þá mun Google einungis birta niðurstöður þar sem leitarstrengurinn birtist orðrétt eins og hann er í gæsalöppunum. Þannig skilar leitin: davíð oddsson niðurstöðum þar sem bæði nöfnin, Davíð og Oddsson birtast á síðu, en leitin: “davíð oddsson” myndi einungis skila þeim síðum þar sem þessi tvö nöfn standa saman. Þetta getur einnig verið gagnlegt við að finna tilvitnanir í sönglagatexta, bíómyndir eða bókmenntaverk, svo dæmi séu nefnd. Það er þó rétt að fara varlega í notkun gæsalappa, því slík leit skilar mjög afmörkuðum niðurstöðum.

Leitaðu að efni á einstökum vef
Ef þú þarft að leita að niðurstöðum frá ákveðnum vef, þá getur Google hjálpað þér ef þú notar skipunina site:. Þú þarft einfaldlega að byrja leitarstrenginn á: site:www.mbl.is leitarorð og þá birtir google bara leitarniðurstöður af vefnum mbl.is. Þetta getur verið gagnlegt þegar leita þarf að algengu orði, eða grein sem þú veist að hefur birst á ákveðnum vef.

Útilokaðu ákveðnar leitarniðurstöður
Það er hægt að undanskilja leitarniðurstöður sem innihalda ákveðin orð með því að nota mínus táknið (-). Segjum sem svo að þú viljir leita að uppskrift að súkkulaðibitakökum sem innihalda ekki egg, þá skrifarðu leitarstrenginn: súkkulaðibitakökur uppskrift -egg, og þá færðu einungis til baka síður þar sem koma fyrir orðin súkkulaðibitakökur og uppskrift, en innihalda ekki orðið egg. Þetta má svo nota saman með öðrum ráðum. Til dæmis, ef þú hefur séð uppskrift á vef mbl.is sem þér leist vel á, en finnur ekki í fljótu bragði aftur, þá geturðu reynt leitarstrenginn site:www.mbl.is súkkulaðibitakökur uppskrift -egg, og þá færðu einungis til baka síður á mbl.is sem innihalda orðin súkkulaðibitakökur og uppskrift, en ekki orðið egg. Að sama skapi er einnig hægt að nota skipunina -site:www.mbl.is, til þess að útiloka niðurstöður frá vefnum mbl.is, tökum sem dæmi: súkkulaðibitakökur uppskrift -egg -site:www.mbl.is, sem skilar sömu orðaniðurstöðum og áður, en núna af öllum öðrum síðum en mbl.is.

Finndu óþekkt hugtök
Það er hægt að nota stjörnumerki (*) til þess að standa í stað óþekkts orðs í leitarstreng. Ef þú slærð inn leitarstrenginn: fljótasti * heims færðu leitarniðurstöður um fljótasta mann heims, fljótasta pizzugerðamann heims og fljótasta kylfing heims, svo eitthvað sé nefnt. Það getur verið gagnlegt að nota stjörnu innan gæsalappa ef þú manst ekki fullkomlega tilvitnun, eða textabrot sem þú ert að leita eftir, samanber: “vont er þeirra *, verra er þeirra *” sem ætti að skila þér réttri niðurstöðu um Íslandsklukkuna.

Leitaðu að ólíkum orðum eða möguleikum fyrir sama hlut
Ef þú vilt fá tvær ólíkar niðurstöður úr leit, annað hvor A eða B, þá er hægt að nota skipunina OR (takið eftir hástöfunum) til þess að fá ólíkar niðurstöður saman. Segjum sem svo að þú viljir fræðast um ævisögur um Halldór Laxness. Ef þú slærð inn leitarstrenginn: ævisaga „halldór laxness“ „hannes hólmsteinn“ OR „halldór guðmundsson“ færðu allar niðurstöður þar sem orðið ævisaga og nafnið Halldór Laxness koma fyrir saman með annað hvort nafni Hannesar Hómsteinns eða Halldórs Guðmundssonar. Ef ekki væri notast við OR í þessari leit, fengjust einungis niðurstöður þar sem orðið kemur fyrir ásamt öllum þremur nöfnunum á sömu síðu. Þetta getur líka verið gagnlegt við að leita að uppskriftum, líkt og leitarstrengurinn: uppskrift lamb OR nautakjöt -svínakjöt.

Leitaðu einhversstaðar á milli
Oft getur verið gagnlegt að afmarka leit við ákveðið tímabil, eða mögulega verðbil. Þú getur beðið Google um að skila þér leitarniðurstöðum á ákveðnu talnabili með því að nota tvo punkta (..) á milli tveggja talna. Letarstrengurinn: skór stærð 43..45 skilar til dæmis bara niðurstöðum þar sem þessi orð koma fyrir ásamt og tölu á þessu bil. Einnig er hægt að nota punktana til þess að skilgreina hámark eða lágmark. Letin: Bíll “hestöfl 300..” skilar þér til dæmis bara niðurstöðum með bílum sem eru yfir 300 hestöfl, á meðan: Bíll “hestöfl ..300” skilar bara niðurstöðum fyrir bíla undir 300 hestöfl.

Fáðu niðurstöður fyrir svipuð hugtök
Stundum getur verið gagnlegt að fá niðurstöður fyrir samheiti eða hugtök sem tákna það sama. Það er hægt að nota tildumerki (~) á undan orði til þess að kalla fram niðurstöður fyrir samheiti. Sökum þess að orðabanki Google á íslensku er fremur takmarkaður, gagnast þessi aðferð nær eingöngu þegar leitað er á ensku. Þannig skilar leitarstrengurinn:  ~food bæði niðurstöðum fyrir food, cuisine, nutrition og cooking.

Notaðu Google til að skilgreina hugtök
Það er hægt að nota Google til þess að skilgreina hugtök sem valda þér erfiðleikum með því að nota: Define: Leitarorð. Google mun þá birta skilgreiningu orðsins ásamt leitarniðurstöðum fyrir orðið. Um þetta gildir það sama og áður, þessi leit skilar einungis árangri á ensku.

Notaðu Google til þess að reikna eða umbreyta magntölum eða einingum
Það er mjög einfalt að nota google sem reiknivél. Ef þú slærð inn leitina: 2 x 3 færðu umsvifalaust leitarniðurstöðuna 6. Það sama er hægt að gera við hverja aðra stærðfræðiformúlu sem hægt er að leysa á reiknivél. Þá getur Google einnig umbreytt magntölum og mælieiningum fyrir rúmmál og massa, svo sem .oz í gr. eða mílum í metra, svo eitthvað sé nefnt.  Eins og oft áður getur þetta nýst vel við bakstur þegar heimfæra þarf uppskrift sem notast við breskar eða bandarískar mælieiningar. Sem dæmi má nefna leitarstrenginn: Pounds in kg sem skilar strax reiknivél sem umbreytir öllum helstu mælieiningum.

Birtist upphaflega í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, 9. desember, 2012.
Auglýsingar

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s