Facebook til frambúðar?

Á meðan Facebook sætir gagnrýni fyrir einhæft tekjumódel, virðist Google+ vera að sækja í sig veðrið.

„Facebook mun alltaf verða frítt“ var staðhæft í stöðufærslu á Facebook síðu fyrirtækisins í fyrra til að kveða niður þrálátan orðróm um að það hygðist byrja að rukka notendur fyrir afnot af vefnum. En vegurinn til heljar er varðaður góðum áformum. 

Í haust hóf Facebook að taka gjald fyrir að tryggja að stöðufærslur fyrirtækja sæjust á síðum sem flestra þeirra sem höfðu „líkað“ við síðu fyrirtækisins á Facebook. Á sama tíma var breytt algóritma sem stjórnar því hvernig stöðufærslur fyrirtækja birtist. Margir eru ósáttir við þessa nýju gjaldheimtu Facebook. Fyrirtæki sem hafa lagt í talsverðan kostnað við að kynna Facebook síðu sína og safna þar vinum, telja að verið sé að koma aftan að þeim með því að leggja nú gjald á að koma skilaboðum til þessa hóps.

Einn þeirra sem hafa gagnrýnt Facebook harðlega fyrir þessa breytingu er netfrömuðurinn vellauðugi, Mark Cuban sem meðal annars á Dallas Mavericks liðið í NBA deildinni. Cuban sagði á Twitter að Facebook væri „að klúðra þessu“ og að hann myndi setja mun meiri áherslu á notkun annarra samfélagsmiðla í markaðssetningu Dallas Mavericks, líkt og Twitter og nýja útgáfu MySpace. Facebook hefur aftur á móti haldið því fram að þessum breytingum sé fyrst og fremst ætlað að bæta reynslu notenda og minnka magn „ruslpósts“ frá fyrirtækjum og gera gæðaefni hærra undir höfði.

Facebook hefur átt í erfiðleikum með að réttlæta þær væntingar sem gerðar voru til fyrirtækisins þegar það var skráð á markað fyrr á árinu. Cuban og fleiri gagnrýnendur telja að Facebook sé fyrst og fremst að reyna að auka tekjustreymið til að stöðva fall á hlutabréfum í félaginu. Hvort heldur það er raunin eða ekki, hafa þessar deilur orðið til þess að vekja spurningar um framtíðartekjumöguleika Facebook.

Facebook lifir á auglýsingum, og ef áætlanir fyrirtækisins ganga eftir mun það selja fyrir fimm milljarða dollara á þessu ári. En vandamálið sem Facebook glímir við er að það er ekki sérlega góður auglýsingamiðill. Á Facebook er fólk fyrst og fremst til að “hitta” annað fólk, og auglýsingar bæta engu við þár reynslu. Það er hætt við að ef Facebook reynir að auka vægi auglýsinga í upplifun notenda snúi þeir fljótt baki við vefnum. Þetta er einmitt vandamálið sem Facebook segist hafa verið að reyna að mæta með nýlegum breytingum á algóritma, og nýlegri breytingu sem felst í að bjóða upp á sérstaka tímalínu hjá notendum þar sem einungist birtast fyrirtæki með Facebooksíður.

+/- Google+

Á meðan Facebook hefur reynt að byggja viðskiptamódel sitt á að selja auglýsingar þá hefur Google nálgast samfélagsmiðla öðruvísi með Google+. Þó Google hafi áður reynt að skapa til samfélagsmiðill með Google Buzz, sem var skammlíft, þá virðist sem Google+ sé lífvænlegra þegar til lengri tíma er litið. Viðskiptamódel Google byggir ekki á að selja auglýsingar á samfélagsmiðlum, heldur að selja auglýsingar í kringum leit. Og í raun er engar seldar auglýsingar að finna á Google+, heldur lítur fyrirtækið svo á að samfélagsmiðilinn sé fyrst og fremst til þess að styrkja auglýsingasöluna í kringum leitina.

Google snýr þannig tekjumódelinu á haus, og notar Google+ fyrst og fremst sem stoð fyrri leitina, sem er hin eiginlega söluvara Google. Þannig notar Google upplýsingarnar sem þú deilir til að bæta leitarniðurstöður og sérsníða þær fyrir notendur eftir fremsta megni. Það mun skipta miklu máli fyrir Google+ til lengri tíma litið að þjónustan er ekki háð auglýsingatekjum, heldur fremur að auglýsingatekjurnar séu háðar þjónustunni.

Google hefur einnit tekist mjög vel til með að samþætta Google+ við aðra hluta vistkerfis Google, svo sem dagatalið, Google Drive og Picasa gerir það að verkum að Google+ virkar eins og eðlileg framlenging af öðrum vörum Google. Þá er þjónustan mjög vel samþætt við Google Chrome sem er vinsælasti netvafri í heimi. En það mikilvægasta fyrir framtíð Google+ er þó mögulega Android stýrikerfið. Netumferð um síma er í stöðugum vexti, og Google framleiðir Android, mest notaða símastýrikerfi í heimi. Google hefur tekist mikið betur til við að gera notkun Google+ ánægjulega í símum, en Facebook, sem hefur átt í stökustu vandræðum með að gera þónustuna þægilega í síma- og töfluforritum.

Það geta fljótt skipast veður í lofti þegar samfélagsmiðlar eru annar vegar. Myspace er til vitnis um það. Þegar til lengri tíma er litið virðist sem Google+ sé miklu betur í sveit sett til þess að vera leiðandi samfélagsmiðill en Facebook.  

Birtist fyrst í Morgunblaðinu, 18. nóvember 2012
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s