Ef að stofnun fellur í skóginum, hætta þá trén að heyra í prentvélunum?

Ritstjóri og stjórnarformaður vikuritsins Newsweek tilkynntu í síðusta mánuði að frá og með áramótum myndi blaðið ekki lengur koma út á prenti og yrði einungis í fáanlegt í stafrænni útgáfu. Þetta eru talsverð kaflaskil í sögu tímarits sem hefur verið komið út vikulega í 80 ár.

Á undanförnum árum hefur lestur prentútgáfu Newsweek dregist verulega saman. Alls voru seld rúm 4 milljón eintök af blaðinu árið 2003, en sú tala hafði lækkað í 1,5 milljón árið 2010. Þá lækkuðu auglýsingatekjur af prentútgáfunni um 70% frá 2007 – 2011. Hins vegar sækja nú um 15 milljónir gesta vefsíðu Newsweek, The Daily Beast, í hverjum mánuði sem er um 70% aukning á milli ára og auglýsingatekjur af stafræna hlutanum hafa aukist um 40%.

Í tilkynningunni segja ritstjórinn og stjórnarformaðurinn að það sé þeirra mat að útgáfan hafi náð vatnaskilum og nú sé árangursríkara og hagstæðara að ná til lesenda á stafrænum miðlum. Breytingin snúist ekki um að gæði vörunnar eða fagmennsku starfsmanna, heldur að takast á við aukinn prent- og dreifingarkostnað með því að selja áskrift að blaðinu fyrir spjaldtölvur ýmiskonar og auka vægi vefsins

Það er freistandi að draga þá ályktun að þessar breytingar á rekstrarformi Newsweek séu til marks um breytt starfsumhverfi fjölmiðla um allan heim. Sú ályktun virðist hins vegar ekki standast nánari skoðun. Ef litið er á sambærilegar tölur frá helstu keppinautum Newsweek, vikublöðunum Time og The Economist, blasir við allt annar veruleiki. Á árunum 2007 – 2011 drógust prentauglýsingar í Time einungis saman um 20%, á meðan þær jukust um 20% hjá The Economist. Þá hefur dreifing og sala í Bandaríkjunum á fréttatengdum tímaritum líkt og The Atlantic og The New Yorker almennt aukist það sem af er þessari öld. Ennfremur spáir markaðsgreiningarfyrirtækið eMarketer því að auglýsingatekjur tímarita komi til með að aukast á komandi árum, einkum tekjur á netinu, en tekjur af prenti sömuleiðis.

Rannsóknir hafa sýnt að lesendur beina sjónum sínum í auknum mæli að stafrænum miðlum, og aukningin er mest í snjallsímum og spjaldtölvum. Á sama tíma eyða auglýsendur markaðsfé sínu hlutfallslega mest í prentauglýsingar með tilliti til minnkandi lesturs þeirra, og í afskaplega litlum mæli í auglýsingar í snjallsímum og spjaldtölvum. En fyrr eða síðar munu auglýsendur elta lesendur. Dagblöðin virðast hins vegar vera sá prentmiðill sem kemur til með að finna mest fyrir þeirri tilfærslu, ekki tímarit. Þvert á móti bendir flest til að vel rekin tímarit verði arðbær enn um sinn, á meðan lesendur kjósa að fá nýjustu fréttir úr símanum sínum, í stað dagblaða.

En hvernig má þá útskýra slæma afkomu Newsweek undanfarin ár? Flestir sem fylgst hafa með þróununni virðast sammála um að blaðið, sem eitt sinn var leiðandi í faglegri blaðamennsku, sé fórnarlamb slæmrar ritstjórnar. Ritstjóri blaðsins, Tina Murphy hefur vakið athygli fyrir umdeildar forsíður og forsíðugreinar sem virðast einkum ætlaðar til þess að valda hneykslun. Í nýlegri forsíðugrein var ráðist harkalega á Barack Obama, Bandaríkjaforseta með litlu tilliti til faglegrar blaðamennsku; og á annari forsíðu var Obama kallaður „fyrsti samkynhneigði forseti Bandaríkjanna.“ Önnur nýleg forsíða vakti hörð viðbrögð fyrir að nota orðin „múslímsk reiði“ með mynd af mótmælendum í arabíska vorinu. Forsíðumynd þar sem reynt var að gera því skóna  hvernig Díanna prinsessa gæti hafa litið út um fimmtugt lagðist illa í marga, og fræg er forsíða Newsweek af Söru Palin í hlaupagalla í Hvíta húsinu.

Afhroð Newsweek eru því ekki endilega vitnisburður um nýtt landslag í tímaritaútgáfu, heldur virðst fremur sem hér sannist enn og aftur hið fornkveðna í blaðamennsku: „content is king.“

Auglýsingar

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s