Celtics – Lakers 25 árum síðar

Ég horfði nýlega á þriðja leik Los Angeles Lakers og Boston Celtics í úrslitakeppninni frá 1985. Sömu lið og léku til úrslita síðastliðið vor, 25 árum síðar. Í þessum leik mættust margir leikmenn sem ég man eftir frá því að ég byrjaði fyrst að fylgjast með NBA deildinni fáum árum síðar. Það sem vakti þó athygli mína í þessum leik var hve margir leikmenn (og þjálfarar) sem þarna mættust, eru enn viðriðnir NBA deildina í dag, alls 18 af 26 leikmönnum.

Boston Celtics

Larry Bird: Þrátt fyrir frábæran árangur sem þjálfari (Pacers, 1997-2000) var Bird ákveðinn í að þjálfa einungis í þrjú ár. Hann færði sig inn í hin myrku og reykfylltu bakherbergi Conseco Fieldhouse, þar sem hann starfar nú sem yfirmaður körfuknattleiksmála hjá Indiana Pacers með misjöfnum árangri.

Kevin McHale: Þrátt fyrir brösulegt gengi sem yfirmaður körfuknattleiksmála hjá Minnesota Timberwolves hélt McHale titlinum í mörg ár. Undir lokin var hann einnig orðinn þjálfari liðsins, sem mörgum þótti ganga heldur betur. Hann steig til hliðar á síðasta ári og starfar nú sem sjónvarpslýsandi á NBA leikjum og er afar vinsæll sem slíkur.

Danny Ainge: Eftir að hafa starfað sem þjálfari Phoenix Suns með ágætum árangri sneri Ainge aftur til Boston þar sem hann tók við stöðu yfirmanns körfuknattleiksmála hjá Celtics liðinu. Árangur hans með liðið var magur framan af, en Ainge var heilinn á bak við ein markverðustu leikmannaskipti í sögu deildarinnar þegar hann fékk þá Ray Allen og Kevin Garnett til liðsins og gerði liðið að meisturum árið 2008.

Quinn Buckner: Quinn Buckner var þjálfari Dallas Mavericks leiktímabilið 1993-1994. Undir hans stjórn vann liðið 13 leiki, en tapa 69. Hann var rekinn tveimur dögum eftir að tímabilinu lauk. Hann starfar nú hjá Indiana Pacers við almenningstengsl og kynningarmál, auk þess að lýsa leikjum Indiana í sjónvarpi.

Rick Carlisle: Hann var valinn þjálfari ársins árið 2002 sem þjálfari Detroit Pistons. Þaðan fór Carlisle yfir til Indiana Pacers þar sem hann hitti fyrir sínu gömlu félaga Bird og Buckner. Hann þjálfaði hjá Pacers í 4 ár með ágætum árangri. Árið 2008 tók hann við þjálfun Dallas Mavericks liðisins.

M.L. Carr: Tók við stöðu framkvæmdastjóra hjá Celtics árið 1994 og bætti svo við sig þjálfun liðsins tímabilin 95-96 og 96-97. Síðara tímabil hans sem þjálfari sigraði liðið í 15 leikum en tapaði 67, sem er versti árangur í sögu félagsins. Að því loknu var Rick Pitino fenginn til að þjálfa liðið og Carr var lækkaður í tign á skrifstofunni. Hann reyndi fyrir sér sem þjálfari í WNBA um tíma, en er nú minnihlutaeigandi í Charlotte Bobcats.

Dennis Johnson: Þótt hann sé fallinn frá, þá finnst mér rétt að telja hann með hér, því ef hans nyti við er líklegt að hann væri enn að starfa í NBA deildinni. Hann var vinsæll aðstoðarþjálfari hjá Clippers, og tók við liðinu í 24 leiki eftir að Alvin Gentry var rekinn árið 2004. Hann þjálfaði tvö lið í NBA-D, og starfaði sem slíkur þegar hann lést árið 2007.

Cedric Maxwell: Vinnur við að lýsa leikjum Celtics í útvarpi í Boston og nærsveitum.

Robert Parrish: Frá því að hann lagði skóna á hilluna hefur Parrish starfað sem ráðgjafi hjá Boston Celtics og sérstakur þjálfari fyrir stóra menn.

Los Angeles Lakers

Magic Johnson: Eftir að hann lauk ferli sínum sem leikmaður tók Magic fyrst að sér þjálfun hjá Los Angeles Lakers. Hann leysti af hólmi þjálfarann Randy Pfund sem var rekinn þegar langt var liðið á tímabilið 1993-94. Eftir að liðið tapaði fimm af fyrstu sex leikjum sínum undir stjórn Magic, tilkynnti hann að hann myndi ekki sækjast eftir starfinu tímabilið eftir. Liðið sigraði í fimm leikum af 34 með Magic á hliðarlínunni. Árið eftir keypt hann 5% hlut í Lakersliðinu sem hann á ennþá. Hann hefur stafað við sjónvarpslýsingar frá NBA síðan 2001. Hann er einnig titlaður varaforseti Los Angeles Lakers, þó sú staða sé að mestu vegna vegsemdarinnar.

Kareem Abdul-Jabbar: Þrátt fyrir að hafa ítrekað látið í ljós áhuga sinn á að þjálfa í NBA deildinni hefur Abdul-Jabbar reynst erfitt að sannfæra lið um að gefa honum tækifæri. Jafnan kenna menn þurrpumpulegri framkomu hans sem leikmaður um. Hann hefur þó fengið tækifæri sem aðstoðarþjálfari hjá bæði L.A. Clippers og Seattle Supersonics, og hefur síðan 2005 verið hluti af þjálfarateymi Phil Jackson hjá L.A. Lakers þar sem hann sinnir þjálfun stórra leikmanna.

Michael Cooper: Síðari körfuboltaferill Michael Cooper hófst þegar hann var ráðinn sem aðstoðarmaður Jerry West sem var þá einræðisherra Lakers. Hann færði sig svo á bekkinn þegar Magic vinur hans tók við liðinu 1994. Hann var þar áfram sem aðstoðarmaður Del Harris. Síðan þá hefur hann mest starfað við þjálfun í WNBA, og NBA-D, en tók þó við þjálfun hjá Denver Nuggets liðinu í afleysingum í einn mánuð 2004 eftir að Jeff Bdzelik var rekinn og þar til George Karl var ráðinn.  Hann er nú þjálfari kvennaliðs USC háskólans, enn þess verður varla langt að bíða eftir að hann dúkkar upp á hliðarlínu í NBA aftur.

Kurt Rambis: Áhugamenn um sögu NBA hafa lengi talið að eitt þeirra atriða sem kom Boston í gírinn í úrslitarimmu þeirra við  Lakers árið 1984, hafi verið fólskulegt brot Kevin McHale á Kurt Rambis. Fram að því hafði Boston litið illa út í seríunni, en þegar McHale reif Rambis niður úr loftinu í lay-up tilraun í hraðaupphlaupi vaknaði Boston liðið til lífsins og unnu titilinn í framhaldinu. Kannski er það við hæfi að Kurt Rambis skuli hafa verið maðurinn sem tók við þjálfarastöðunni hjá Minnesota eftir að McHale var látinn taka sjópokann 2009. Rambis þjálfaði Lakers liðið tímabundið í afleysingum milli þjálfaranna Del Harris og Phil Jackson og náði ágætum árangri Hann hefur undanfarin ár verið hluti af þjálfarateymi Jackson, og hefur lengi verið nefndur sem líklegastur til að taka sæti hans á bekknum.

Byron Scott: Að öðrum þjálfurum á þessum lista ólöstuðum hefur Scott líklega náð hvað bestum árangri. Hann var hjá New Jersey frá 2000-2004,  og stýrði liðinu í úrslit tvö ár í röð. Þaðan lá leiðint til New Orleans, þar sem hann var valinn þjálfari ársins eftir að hafa fengið ungt lið til að spila mun betur en væntingar stóðaðist til. Nú bíður hans stærsta áskorun þjálfara, að þjálfa Cleveland án LBron James.

Mitch Kupchak: Þrátt fyrir að ferill hans sem leikmaður hafi verið tilþrifalítill, þá hefur Mitch Kupchak staðið sig með sóma eftir að hafa tekið við hásætinu sem einvaldur hjá Lakers undanfarin ár. Hann stýrði liðinu í gegnum öldudal, og kom því aftur á sigurbraut.

Bob McAdoo: Hefur starfað undanfarinn 11 ár hjá Pat Riley, sínum gamla þjálfara, sem aðstoðarþjálfari hjá Miami Heat.

Ronnie Lester: Hann byrjaði ferillinn sem njósnari fyrir L.A. Lakers, en hefur unnið sig upp. Frá og með 2006 er hann aðstoðarframkvæmdastjóri liðsins.

James Worthy: Big Game“ James starfar við lýsa leikjum Lakers liðsins í sjónvarpi í Los Angeles og nærsveitum.

Auglýsingar

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s