Nýliðaval NBA 1986

William Bedford, Len Bias, Chris Washburn, Brad Daugherty

Það eru skiptar skoðanir um hvað sé besta nýliðavalið í sögu NBA deildarinnar. Sumir telja það vera árið 1984 (Hakeem Olajuwon, Michael Jordan, Charles Barkley, John Stockton). Aðrir telja það hafa verið árið 1996 (Allen Iverson, Ray Allen, Kobe Bryant, Steve Nash). Svo eru þeir sem telja að nýliðavalsins 2003 verði minnst sem þess besta í sögunni (LeBron James, Carmelo Anthony, Chris Bosh, Dwayne Wade).

Ég ætla hins vegar að rifja upp nýliðavalið árið 1986. Þess verður líklega minnst sem versta nýliðavals í sögu NBA deildarinnar, þó margir hæfileikaríkir leikmenn hafi verið í boði. Fæstir þeirra náðu þó að setja mark sitt á deildina, í það minnsta sem leikmenn.

1. Brad Daugherty – Cleveland Cavaliers.
Brad Daugherty var einn af þremur nýliðum sem Cleveland liðið valdi árið 1986 og áttu stóran þátt í að gera liðið að einu efnilegasta liði 9. áratugsins. Daugherty var hæfileikaríkur miðherji frá Norður Karólínu háskólanum þar sem hann lék með Michael Jordan. Á ferli sínum í NBA deildinni skoraði hann 10.000 stig, tók 5.000 fráköst og átti 2.000 stoðsendingar. Hann var fimm sinnum valinn í stjörnuliðið austurstrandarinnar og einu sinni valinn í 3. lið NBA. Hann leiddi Cleveland liðið í úrslitarimmu á austurströndinni árið 1992. Daugherty lagði hins vegar skóna á hilluna 28 ára gamall vegna þrálátra bakmeiðsla. Ferill Daugherty spannaði raunar bara sex tímabil, auk tveggja tímabila þar sem hann spilaði einungis nokkra leiki vegna meiðsla. Hverful lukka Daugherty er önnur helsta ástæða þess að Cleveland liðið náði aldrei að verða stórveldið sem margir töldu að það yrði á 9. áratugnum. Hin ástæðan er Michael Jordan. Þrátt fyrir velgengni Daugherty, þau fáu ár sem hans naut við, má segja að hann hafi verið forsmekkur þess sem koma skyldi frá nýliðaárgangnum 1986. Hæfileikaríkur leikmaður sem aldrei náði að setja mark sitt á deildina vegna meiðsla eða annara aðstæðna sem höfðu ekkert með körfuboltahæfileika að gera.

2. Len Bias – Boston Celtics
Þrátt fyrir að hafa aldei leikið í NBA deildinni hefur líklega enginn leikmaður úr þessum árgangi hafi haft jafn afgerandi áhrif á örlög þess liðs sem valdi hann og Len Bias. Hann er jafnan talinn hafa verið hæfileikaríkasti leikmaðurinn úr hópi þeirra nýliða sem valdir voru 1986. Sumir telja að hann hefði getað maðurinn til að standa upp í hárinu (eða skallanum) á Michael Jordan, líkt og Magic Johnson gerði gegn Larry Bird. Árið 1986 átti Boston liðið eitt besta tímabil í sögu deildarinnar. Þeir unnu 67 leiki, þar af 40 af 41 leik á heimavelli og urðu meistarar eftir léttan sigur á Houston Rockets. Larry Bird var valinn besti leikmaður deildarinnar þriðja árið í röð. Sérfræðingar telja að ef Len Bias hefði gengið til liðs við Boston hefði ferill Bird orðið lengri, og Boston liðið hefði hugsanlega verið sama stórveldið á 9. áratugnum og það var á þeim 8. Len Bias lést hins vegar af ofneyslu kókaíns tveimur dögum eftir nýliðavalið 1986. Það markar upphafið á eyðimerkurgöngu Boston liðsins sem lauk ekki fyrr enn 2008, þegar liðið vann loks titill undir handbendi Kevin Garnett.

Chris Washburn, útúrkókaður á því

3. Chris Washburn – Golden State Warriors
Washburn var hluti af sterku háskólaliði rískisháskólans í Norður Karólína ásamt Nate McMillan og Vinny Del Negro, sem báðir eru þjálfarar í NBA deildinni í dag. Hann var talinn mjög efnilegur leikmaður, hávaxinn framherji sem var bæði snöggur og sterkur, með hæfileika til að skora jafnt undir körfunni sem utan af velli. Hann hafði margt til að bera til að verða stjörnuleikmaður. Washburn spilaði þó einungis 72 leiki á tveimur tímabilum  í NBA deildinni og skoraði heil 222 stig áður en hann var dæmdur í ævilangt bann frá NBA deildinni fyrir kókaínneyslu. Þaðan lá leiðin til Houston þar sem Washburn bjó á götunni og át úr ruslinu uns hann hafnaði í fangelsi fyrir fíkniefnabrot. Hann sneri við blaðinu árið 2000 og starfar nú hjá húsnæðislánafyrirtæki. Hann á tvo syni sem þykja efnilegir körfuboltaleikmenn.

4. Chuck Person – Indiana Pacers
Nýliði ársins 1986. Person var fyrrum liðsfélagi Charles Barkley frá Auburn háskólanum, og á að öðrum ólöstuðum sennilega svalasta viðurnefnið í sögu deildarinnar: The Rifleman. Hann átti sín bestu ár hjá Indiana þar sem hann náði einu sinni að rjúfa 20 stiga meðaltalsmúrinn. Hann átti eftirminnilega rimmu við Larry Bird í úrslitakeppninni 1991. Hann var sendur til Minnesota eftir tímabilið 1991-92 og eftir það lá leiðin heldur niður á við. Hann lék þó 14 ár í deildinni, lengst af sem varamaður.

5. Kenny Walker – New York Knicks
Þrátt fyrir ágætan feril í háskólaboltanum hjá liði Kentucky háskóla þá reyndist Kenny Walker ekki hafa líkamlega burði til að spila undir körfunni með stóru strákunum í NBA boltanum. Hann var heldur ekki nægilega teknískur til að færa sig út á vængina. Hátindur hans í deildinni var þegar hann sigraði troðslukeppnina 1989 eftir keppni við Clyde Drexler.  Hann spilaði í fimm viðburðalítil ár með New York, spilaði svo í Evrópu og lauk ferlinum með tveimur jafn viðburðarlitlum tímabilum hjá Washington Bullets. Walker vann þó sennilega sitt stærsta afrek í ágúst 1986, áður en hann steig nokkurn tíma á NBA völl. Þá lagði hann veðhlaupahest í kapphlaupi.

6. William Bedford – Phoenix Suns
Forráðamenn Phoenix töldu sig hafa nælt í framtíðar miðherja liðsins þegar þeir völdu William Bedford með sjötta valréttinum árið 1986. Hann hafði þá leikið við góðan orðstír hjá háskólaliði Memphis. Það reyndist hins vegar vera tálsýn, því Bedford var eiturlyfjafíkill og náði aldrei að fóta sig í NBA deildinni. Hann þvældist á milli liða í 6 tímabil (það eru margir tilbúnir að gefa 213 cm leikmanni með íþróttahæfileika annan séns) en staldraði jafnan stutt við þegar í ljós kom að áhugi hans á kókaíni var umtalsvert meiri en áhugi hans á körfubolta. Hann situr nú af sér tíu ára fangelsisdóm í Michigan eftir að hafa verið handtekinn með 25 pund af kanabisefnum í skottinu.

7. Roy Tarpley – Dallas Mavericks
Roy Tarpley sýndi hvers hann var megnugur í úrslitakeppninni 1988 þegar Dallas liðið stillti verðandi meisturum, Lakers, upp við vegg í úrslitum vesturstrandarinnar. Hann var grimmur í fráköstunum og reyndist seigur biti fyrir Kareem Abdul-Jabbar og James Worthy. Hann var valinn 6. maður ársins árið 1987, en þrátt fyrir að ferill Tarpley lofaði góðu var hann settur í bann fyrir kókaínneyslu árið 1991, og endanlega bannfærður af NBA árið 1995 vegna áfengissýki. Hann þvældist um Evrópsku atvinnumannadeildirnar í nokkur ár en lét af iðkun körfuknattleiks árið 2006. Hann höfðaði mál gegn Dallas Mavericks og NBA deildinni fyrir að setja hann í lífstíðarbann vegna sjúkdóms síns, en sættir náðust áður en málið fór fyrir dóm.

Ron Harper - alltaf að sigra

8. Ron Harper – Cleveland Cavaliers
Ron Harper var einn af þremur nýliðum sem Cleveland liðið valdi árið 1986 sem sneru gengi liðsins við á 9. áratugnum. Harper átti langan ferill í deildinni og vann meðal annars til titla með Chicago Bulls og Los Angeles Lakers. Framan af ferlinum var hann drjúgur stigaskorari og ágætur varnarmaður. Síðar færði hann sig yfir í stöðu leikstjórnanda þar sem hann stjórnaði hinni flóknu þríhyrningasókn Phil Jackson, bæði hjá Bulls og Lakers.

9. Brad Sellers – Chicago Bulls
Það voru gerðar talsverðar væntingar til Brad Sellers þegar hann gekk til liðs við Chicago Bulls árið 1986. Liðið var að leita að ungum leikmönnum sem gætu vaxið og dafnað við hlið Michael Jordan og komið liðinu á sigurbraut. Brad Sellers reyndist ekki vera sá leikmaður. Það var ekkert leyndarmál að Jordan vildi fá Johnny Dawkins til liðsins (sem var valinn næstur) en framkæmdastjórinn Krause var hrifinn af snuðrulausum skotstíl Sellers. Jordan leit á þetta sem persónulega móðgun og gerði sitt til að sýna fram á að Sellers hefði ekki verið réttur kostur í stöðunni. Hann niðurlægði hann á æfingum, í leikjum og þess á milli, þar til Sellers var orðinn skuginn af sjálfum sér og var loks sendur í burtu í skiptum fyrir valrétt. Hann lék þó í mörg ár í Evrópu þar sem vel er af honum látið, enda var Jordan þá of upptekinn af því að vinna titla til að ala hatur sitt á Brad Sellers.

10. Johnny Dawkins – San Antonio Spurs
Dawkins kom frá hinum öfluga Duke háskóla þar sem hann átti stigametið fram til 2006 þegar J.J. Reddick hirti það af honum. Hann var valinn  leikmaður ársins í háskólaboltanum 1986 og margir bjuggust við miklu af honum í atvinnumannadeildinni. Sem dæmi má nefna að hann var fyrsti leikstjórnandinn sem valinn var árið 1986. Hann fékk fá tækifæri hjá San Antonio, en átti nokkur góð ár með Philadelphia liðinu í byrjun 9 áratugarins. Ferill hans var þó litaður af erfiðum og ítrekuðum meiðslum og hann sagði skilið við deildina eftir níu ár.

11. John Salley – Detroit Pistons
Spider, eins og hann er jafnan kallaður, er mögulega þekktari fyrir leik sinn í Hollywood myndum en á körfuboltavellinum. Hann reyndist þó betri en enginn. Eins og hann hefur sjálfur bent réttilega á þá er hann eini leikmaðurinn sem hefur unnið 4 titla með þremur mismunandi liðum á þremur mismunandi áratugum og tveimur mismunandi öldum. Hann var einn af lykilmönnum Detroit Bad Boys en lék einnig með Chicago Bulls og Los Angeles Lakers þegar liðin sigruðu í deildinni. Hann er einnig þekktur uppistandari og hefur í seinni tíð verið vinsæll sem þáttarstjórnandi, bæði í sjónvarpi og útvarpi.

12. John Williams – Washington Bullets
Það ætti að hringja einhverjum viðvörunarbjöllum þegar leikmaður fær viðurnefnið Hot Plate til aðgreiningar frá hinum John Williams sem lék í deildinni og hafði viðurnefnið Hot Rod. John Williams var sérlega hæfileikaríkur körfuboltamaður sem hafði ótrúlegan leikskilning og var góður að koma boltanum í hendur samherja á réttum stöðum. Vandamálið var hins vegar að hann var offitusjúklingur. Hann barðist við aukakílóin allan sinn feril, en aukaþyngdin gerði það að verkum að hann átti í stöðugum vandræðum með hné og bak og var meira og minna frá vegna meiðsla.

Aðrir leikmenn sem valdir voru í þessu vali voru flestir liðleskjur eða minni spámenn með nokkrum undantekningum.

22. Scott Skiles – Milwaukee Bucks
Skiles var annar leikstjórnandinn sem valinn var í fyrstu umferð 1986. Hann átti nokkur góð ár sem leikstjórnandi Orlando Magic, þar sem hann setti meðal annars met fyrir flestar stoðsendingar í einum leik árið 1990 þegar hann skilaði af sér 30 stykkjum, sem flestar hverjar enduðu líklega í krumlunum á Shaquille O’Neal. Hann er í dag þjálfari Milwaukee Bucks liðsins.
Uppfært: NBA sérfræðingurinn Baldur Beck hefur bent á að Shaq var ekki einu sinni kominn til Orlando árið 1990. Hann var valinn fyrstur í nýliðavalinu 1992. Það gerir þetta met einungis merkilegra.

Arvidas Sabonis, Hasselhofískur að sjá.

24. Arvidas Sabonis – Portland Trailblazers
Sabo var besti leikmaðurinn í Evrópu á þessum tíma. Hann leiddi Sovéska liðið til sigurs á Olympíuleikunum 1988, og var margoft valinn besti leikmaður Evrópu. Hann var síðasti leikmaðurinn sem var valinn í fyrstu umferð árið 1986, en gekk hins vegar ekki til liðs við Portland Trailblazers fyrir árið 1995, þá 31 árs gamall. Þrátt fyrir að hafa glímt við erfið meiðsli síðan 1986 var Sabonis annar í vali á nýliða ársins 1995 og í valinu á 6. leikmanni ársins sama ár. Körfuboltaáhugamenn hafa lengi velt því fyrir sér hvernig ferill Sabonis hefði litið út ef hann hefði eytt sokkabandsárum sínum í NBA, fremur en að þvælast um Evrópu.

25. Mark Price – Cleveland Cavaliers
Þriðji nýliði Cleveland, eins og áður hefur verið minnst á. Fyrsti nýliðinn valinn í annarri umferð nýliðavalsins og einungis þriðji leikstjórnandinn. Hann var álitinn of lítill og of seinn til að lifa af í atvinnuboltanum, en silkimjúk stroka og gott auga fyrir sendingum tryggðu honum þáttöku í fjórum stjörnuleikjum og sigur í tveimur þriggja stiga skotkeppnum.

Dennis Rodman, besti leikmaður nýliðavalsins 1986?

27. Dennis Rodman – Detroit Pistons
Hugsanlega þekktari fyrir margt annað en körfuknattleik. Rodman er þó líklega besti leikmaðurinn sem gekk til liðs við deildina þetta árið, margfaldur varnarmaður ársins og frákastakóngur. Lykilleikmaður í fimm meistaraliðum og meistari í sálfræðihernaði. Valinn þriðji í annarri umferð.

46. Jeff Hornacek – Phoenix Suns
Fæstir hefðu veðjað á að þegar upp væri staðið yrði Jeff Hornacek stigahæstur allra leikmanna sem valdir voru 1986, en hann skilaði rúmlega 15.000 stigum á 14 ára ferli. Ef hann hefði ekki gengist við viðurnefninu Horny, er óvíst að nokkur myndi eftir þessum leikmanni. Hann var þó kjörinn í eitt stjörnulið og vann þriggja stiga keppnina tvisvar. Hann var valinn næst-síðastur í annarri umferð.

60. Drazen Petrovich – Portland Trailblazers
Enn einn leikmaðurinn frá 1986 hvers ferill varð stuttur vegna meiðsla, í þessu tilviki dauðaslyss á hraðbraut í Þýskalandi þegar hann var 28 ára gamall. Petro var ótrúlega hæfileikaríkur leikmaður sem leiddi landslið Júgóslavíu til glæstra sigra á körfuboltavellinum á 8. áratugnum. Hann bjó yfir algjörlega fullkomnu, vélrænu stökkskoti sem einungis var hægt að framleiða undir járnaga kommúnismans. Hann gekk ekki til liðs við Portland liðið fyrr en 1989, þar sem hann lék eitt ár áður en hann fór til New Jersey þar sem hann blómstraði. Tímabilið 1992-93 var hann einn af bestu leikmönnum deildarinnar, var valinn í 3. lið NBA og var 13. yfir stigahæstu leikmenn deildarinnar. Hann var á góðri leið með að tryggja sig í sessi sem ein af stjörnum deildarinnar þegar hann hitti fyrir vöruflutningabíl á rangri akrein sumarið 1993.

Auglýsingar

6 comments

  1. Góð grein Birkir. gaman að rifja þetta upp. Man vel eftir Brad Daugherty hjá Cavs. Vissi aldrei hvað varð af honum. Þegar á allt er litið var þetta 1986 bara nokkuð gott val. Ég tel að 2003 valið hafi verið það besta hingað til. ég héllt að Skiles hafi farið fyrr en þetta er rétt. Fjandi góður leikmaður á sínum tíma og glettilega góður þjálfari.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s