Gjaldmúrar og fréttavefir: Svar til Styrmis Gunnarssonar

„Tími ókeypis fréttamiðlunnar er liðinn,“ segir Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Í nýju sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Styrmir er ekki fyrstur til þess að kveða þessa limru, útgefendur dagblaða um allan heim hafa reynt að telja lesendum sínum trú um þetta lengi. Vandamálið er að þessi fullyrðing stenst ekki nánari skoðun, og því lengur sem Morgunblaðið og aðrir útgefendur dagblaða berja höfðinu í steininn, þeim mun verr á þeim eftir farnast í samkeppninni um lesendur í framtíðinni.

Það er dálítið erfitt að gera sér grein fyrir því hvort Styrmir er að kvarta undan stöðu blaðamennsku á Íslandi almennt, eða eingöngu undan stöðu Morgunblaðsins sem áskriftarblaðs, en það hefur staðið hallandi fæti um nokkurt skeið. Ég ætla að gefa mér að Styrmir sé að ræða um stöðu blaðamennsku og fara nánar í saumanna á umræðunni um „ókeypis fréttamiðlun“

Dauði dagblaðsins sem viðskiptamódels

„Á síðustu árum hefur ókeypis upplýsingamiðlun breiðst út með fríblöðum og netmiðlum, sem kosta notendur ekki neitt. Hver á að borga kostnað við þessa upplýsingaöflun og miðlun þeirra upplýsinga?“ Spyr Styrmir í grein sinni. Þetta kann að hljóma sem sanngjörn spurning, en tökum eftir því að hún inniheldur lymskulegt orðræðubragð. Þó svo að notendur greiði ekki fyrir upplýsingamiðlunina, þá er ekki þar með sagt að hún sé ókeypis. Hún er einfaldlega greidd með öðrum leiðum, s.s. auglýsingum eða öðru styrktarfé.

Tekjulindir áskriftarblaða eru tvær. Annars vegar áskriftir og hins vegar auglýsingar. Nú þekki ég ekki rekstrartölur Morgunblaðsins, en almenn má segja að á stærri blöðum sé reiknað með að auglýsingatekjur standi undir fréttaöflun á meðan áskriftartekjur standi undir prentkostnaði og dreifingu.

Þegar önnur tekjulindin þurrkast út er skynsamlegt að einhver hluti kostnaðarins verði aflagður líka. Á Íslandi hefur þetta einkum verið gert með viðamiklum niðurskurðaraðgerðum, útgáfudögum hefur verið fækkað, starfsmönnum fækkað, síðum fækkað og dregið úr dreifingu. Í Bandaríkjunum hefur hins vegar víða borið á því að prentútgáfan hefur einfaldlega verið lögð niður og útgáfan alfarið færst yfir á netið. Það er lítil reynsla komin á þetta ennþá, en þó er vert að athuga að tiltölulega stórar borgir í Bandaríkjunum, t.d. Seattle, hafa ekkert dagblað.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að viðskiptamódelið „dagblað“ eins og við þekkjum það – miðill sem flytur fréttir gærdagsins – sé dauðadæmt. Framtíðin fréttaflutnings hlýtur að felast í að hefðbundnum fréttum (hvað, hvar, hvenær, hvernig) verði einkum miðlað í gegnum netið, sem næst rauntíma, á meðan dagblöð fækka útgáfudögum og einbeitia sér að því að skýra samhengi atburða í lengra máli. Ég held að þetta sé tímaspursmál í ljósi þess hvernig neysla á fréttum hefur breyst.

Ég vil því frekar skoða hitt viðfangsefni Styrmis, þ.e. hvort raunhæft er fyrir fréttamiðla að selja áskrift á netinu.

Mótsögnin um mbl.is

„Netmiðlarnir byggja í flestum tilvikum á fréttum, sem unnar eru af ritstjórnum blaða en stundum af sérstökum ritstjórnum. Þessi fréttaskrif kosta peninga. Um allan hinn vestræna heim eru hafnar umræður um hvernig eigi að innheimta þóknun fyrir notkun fréttamiðla á netinu. Þær umræður eru tímabærar hér. Auglýsingatekjur duga ekki til, þótt mbl.is hafi náð því marki síðustu ár að skila hagnaði. Spurningin er ekki lengur sú, hvort taka eigi gjald fyrir notkun netmiðla, heldur hvernig. Dagblöð í öðrum löndum hafa farið mismunandi leiðir til þess en gera má ráð fyrir, að blöð á borð við Financial Times í Bretlandi og Wall Street Journal í Bandaríkjunum verði öðrum fyrirmynd í þeim efnum.“

Styrmir fullyrðir hér að auglýsingatekjur dugi ekki til að standa undir rekstri fréttamiðla á netinu, þó svo að mbl.is hafi skilað hagnaði síðustu ár. Þetta eru undarlegustu rök fyrir fullyrðingu sem ég hef lesið lengi. Styrmir heldur því sem sagt fram að í ljósi þess að mbl.is skilar hagnaði, þá sé ekki hægt að reka fréttamiðil á netinu með hagnaði. Á einhverjum tímapunkti rís þessi umræða vonandi á hærra stig.

Netmiðlar sem rukka fyrir aðgang að efni eru ekki einungis að loka notendur úti, heldur eru þeir fyrst og fremst að læsa sjálfa sig inni. Reynslan er sú að gjaldmúrinn (e. Pay-wall) dregur verulega úr heimsóknum, sem dregur verulega úr auglýsingatekjum. Fréttaneyslan færist einfaldlega annað. Þetta er einföld hagfræði.

Upplýsingaflæðið á internetinu er einfaldlega of mikið til að fréttamiðill líkt og mbl.is geti fengið nægilega stóran hluta lesenda sinna til þess að greiða fyrir áskrift til þess að það bæti upp fyrir tapaðar auglýsingatekjur sem fylgja minni umferð um vefinn.

Styrmir minnist í grein sinni á að miðlar líkt og Financial Times og Wall Street Journal verði fyrirmynd annarra dagblaða við uppsetningu gjaldmúrs, en bæði selja þau aðgang að hluta af fréttum sínum á vefnum. Það ber að athuga að þessi blöð flytja bæði viðskiptafréttir. Þetta er sem sagt sérhæfð þjónusta sem miðar að ákveðnum hópi þar sem upplýsingar gætu mögulega skipt töluverðu máli.

Enn fremur ber að athuga að áskriftarþjónusta þessara blaða er fyrst og fremst seld fyrirtækjum í fjármálastarfsemi, ekki einstaklingum. Síðan Financial Times hóf að selja aðgang að vefi sínum hafa þeir selt 120.000 áskriftir. Á sama tíma hefur heimsóknum fækkað úr 400.000 á dag, í 150.000 á dag.

Lausnin felst ekki í gjaldmúrum sem loka efnið inni. Þetta reikningsdæmi hefur verið reiknað aftur og aftur, en það hefur enn ekki gengið upp.

Listin að tengja

„Nú eru jafnvel orðnir til netmiðlar, sem byggja á því að safna saman fréttum úr öðrum netmiðlum. Hér á Íslandi á það við um eyjuna.is, pressuna.is og að einhverju leyti amx.is. Þessir netmiðlar byggja að verulegu leyti á fréttum, sem birtar eru í heild af mbl.is, vísi.is og dv.is. Útgefendur þessara þriggja síðastnefndu netmiðla standa undir verulegum kostnaði við þau fréttaskrif. Það er óeðlilegt að aðrir miðlar geti einfaldlega tengt sig við þær fréttir án þess að nokkuð komi í staðinn. Þeir eiga auðvitað að greiða fyrir þessa þjónustu.“

Þessi orð Styrmis afhjúpa líklega skýrast hversu lítinn skilning hann hefur á internetinu sem miðli. Vefir á borð við eyjan.is safna fréttum ólíkra miðla saman á einn stað. Í flestum tilfellum, klárlega í tilfelli eyjan.is og amx.is og pressan.is, láta þessir vefir nægja að birta fyrirsögn fréttar og tengja svo á upphaflegu fréttina. Og hér slær út í fyrir Styrmi, því það er einfaldlega ekki svo að það komi ekkert í staðinn. Þessir vefir skapa umferð inn á mbl.is sem er forsenda þess að selja auglýsingar á vefinn. Það er því einfaldlega þannig að þessir vefir eru beinlínis að skapa tekjur fyrir mbl.is. Hugsanlega ætti Styrmir að skoða neðsta hluta mbl.is betur, því þar er nákvæmlega sama iðja stunduð undir fyrirsögninni „Fréttir annarra miðla“.

Á sínum tíma sýndi mbl.is töluverða framsýni með stofnun Moggabloggsins. Fátt hefur gert eins mikið til að skapa umferð um vefinn og bloggið. Það er ljóst að einhver staðar um ganga Hádegismóa ráfar maður sem hefur í það minnsta smá skilning á internetinu og gerir sér grein fyrir að eina raunhæfa leiðin til að afla tekna fyrir vefmiðla er að skapa umferð og selja auglýsingar. Því miður virðist hann ekki hafa eytt miklum tíma í að útskýra það fyrir Styrmi Gunnarssyni áður en hann lét af störfum.

Að lokum eru hér nokkrar góðar greinar/heimasíður um efnið fyrir þá sem vilja kafa dýpra:

Jay Rosen: Flying Seminar in the Future of News

Clay Shirky: Thinking the Unthinkable

Mark Potts: Recovering Journalist

Daring Fireball: Charging for Access to Newssites

Daring Fireball: Pay Walls

Jeff Jarvis: BuzzMachine

CUNY: New Business Model for News

Auglýsingar

10 comments

 1. Þetta er akkúrat það sem ég hugsaði bara stutt betri rökum en ég nennti að googla. Þeir sem stjórna Árvakri skilja ekki tíðarandann, í fleiri en einni merkingu augljóslega, og eru því dæmdir til að fara halloka í samkeppninni um vefrápara. Ekki að ég sakni þess sérstaklega en það væri samt sterkur leikur að selja mbl.is út úr fyrirtækinu og leyfa síðan Davíð og Styrmi að skrifa greinar fyrir hvorn annan í doggan þar til eigið fé er endanlega búið.

 2. […] Gjaldmúrar og fréttavefir: Svar til Styrmis Gunnarssonar « Sveinn Birkir's Amazing WordPress Blog sveinnbirkir.wordpress.com/2009/10/27/106 – view page – cached „Tími ókeypis fréttamiðlunnar er liðinn,“ segir Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Í nýju sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Styrmir er ekki fyrstur til þess að kveða þessa… (Read more)„Tími ókeypis fréttamiðlunnar er liðinn,“ segir Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Í nýju sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Styrmir er ekki fyrstur til þess að kveða þessa limru, útgefendur dagblaða um allan heim hafa reynt að telja lesendum sínum trú um þetta lengi. Vandamálið er að þessi fullyrðing stenst ekki nánari skoðun, og því lengur sem Morgunblaðið og aðrir útgefendur dagblaða berja höfðinu í steininn, þeim mun verr á þeim eftir farnast í samkeppninni um lesendur í framtíðinni. (Read less) — From the page […]

 3. Takk fyrir ágæta grein.
  Eitt finnst mér athyglisvert. Styrmir segir beinlínis það sama og þú þ.e. að blöð verði að dýpka umfjöllun sína, beina athyglinni meira að fréttaskýringum, hætta yfirborðskenndri umfjöllun um fræga fólkið og allt það.

  Hann gerði hins vegar ekkert af þessu þegar hann var ritstjóri Moggans. Hnignunin byrjaði þegar reynt var að poppa blaðið upp, lesefni var stytt til mikilla muna og aukin áhersla lögð á yfirborð og skrif um dægurmál og froðu.

  Mogganum hnignaði gífurlega á síðustu árum Styrmis. Blaðið hætti t.d. að skrifa um alþjóðamál en vandaðar erlendar fréttir og fréttaskýringar blaðsins höfðu verið eitt sterkasta einkenni þess. Mogginn var nefnilega stórblað og vönduð umfjöllun um útlönd var helsta sönnun þess. Blaðið hafði víðari sjóndeildarhring en aðrir íslenskir fjölmiðlar. Þar vann líka fólk sem hafði raunverulega þekkingu á alþjóðamálum.

  Nú er það líka búið.
  Það sama er að segja um Lesbókina. Þar var allt klippt niður og skorið í einhverja kassa en löngu og vönduðu lesmáli kastað út. Nú er Lesbókin dauð og grafin.

  Þetta voru hrikalega vitlausar ákvarðanir.
  Ég kaupi enn Moggann, sennilega af gömlum vana en mér þykir blaðið alveg afleitt.
  Ef til vill hefði verið hægt að bregðast við með öðrum hætti og forða algjöru hruni blaðsins.
  Þeir sem bera ábyrgð á vitlausum ákvörðunum verða bara að lifa með þær.
  Í grein Styrmis er ekkert fjallað um þetta. Mér þykir hún mjög skrýtin og eiginlega ósannfærandi. Þarna skrifar maður sem gat breytt hlutunum en gerði ekki.

 4. „Framtíðin fréttaflutnings hlýtur að felast í að hefðbundnum fréttum (hvað, hvar, hvenær, hvernig) verði einkum miðlað í gegnum netið, sem næst rauntíma“

  Dagblaðið Nei. hafði ágætis reglu, sem var „innbyggð töf“ á öllum fréttaflutningi – þ.e. það sem blaðamaður skrifaði í dag var oftast ekki birt fyrren í fyrsta lagi daginn eftir (á þessu voru undantekningar aðallega þegar verið var að hvetja fólk til að mæta eitthvað, núna).

  Ég hef unnið á fréttamiðli (bb.is) þar sem einmitt var feykileg krafa um að vera fyrst með fréttirnar (að vera á undan svæðisútvarpinu annars vegar, og landsmiðlunum hins vegar – með vestfirskar fréttir). Þessi asi er til óttalegra trafala – og maður „skrifar“ (kópípeistar) oft alls konar vitleysu sem maður skammast sín fyrir eftir á, einfaldlega vegna þess að annað er ekki í boði. Það tekur tíma að „skilja“ hlutdræga fréttatilkynningu og sá tími er ekki í boði.

  Sem dæmi má nefna þegar utanríkisráðuneytið tilkynnti um niðurskurð í fyrra, undir stjórn Ingibjargar Sólrunar – þá sendir ráðuneytið frá sér tilkynningu sem allir miðlar hamast við að koma á netið, túlkunarlaust. Hér er þá gengið út frá því að upplýsingarnar, einsog þær koma af kúnni, séu „túlkunarlausar“, sem þær eru auðvitað ekki – þær eru á borð bornar með túlkun ráðuneytisins. Og þar fær aðilinn sem veitir upplýsingarnar algert túlkunarvald – enda birtist þessi fréttatilkynning lítið breytt á öllum miðlum. Þegar svo var farið að kafa í þetta kom auðvitað í ljós að þarna stóð ekki steinn yfir steini – niðurskurðurinn var enginn niðurskurður:

  http://this.is/nei/?p=480

  Það var engu logið í fréttatilkynningu ráðuneytisins – en ákveðnir hlutar settir í forgrunn og látið sem aðrir kæmu málinu lítið sem ekkert við.

  Með innbyggðu töfinni var Nei. fyrst til að segja hina raunverulegu frétt – 2-3 dögum eftir að tilkynningin birtist – fyrst til að skoða sjálfar upplýsingarnar og veita hlutlausa (eða í það minnsta sjálfstæða) túlkun. Og eina fréttastofan til að matreiða aldrei kokkeríið úr ráðuneytinu hrátt ofan í lesendur sína.

  Þetta kom seint og um síðir í dagblöðin – en þá er það eiginlega um seinan. Allir fréttamiðlar voru búnir að undirstrika og samþykkja vitleysuna einsog hún kom úr ráðuneytinu – vegna þess að asinn er svo mikill. Þá voru auk þess allir „búnir“ að lesa fréttina – hún var gömul og fæstir höfðu áhuga á henni lengur (en nær allir voru tilbúnir til að hafa eftir að verið væri að skera niður í utanríkisráðuneytinu, þó það væri alls ekki raunin).

  Asinn verður svo ennþá meiri þegar blaðamönnum fækkar o.s.frv.

  Þetta breytir auðvitað engu um hitt að líklega er vef-fjölmiðlun „framtíðin“ – en það er ástæðulaust fyrir því að láta einsog hún sé ekki meingölluð (líkt og einokun stóru dagblaðanna á sannleikanum áður).

 5. Rétt hjá þér. Ég færi aldrei inn á mbl.is er það væru ekki tengingar á eyjan.is þangað inn. Og ég færi aldrei inn á moggabloggið er ég hefði ekki hug á að lesa tvö eða þrjú blogg þar.

 6. Ég er ekki að tala um gæði fjölmiðla Eiríkur, það er þessu vandamáli óháð. Ég er einfaldlega að segja að fólk mun lesa fréttirnar á netinu, eða í símanum sínum, ekki í dagblaði. Það sem þú ert að lýsa er allt annað vandamál, sem reyndar er fullrar athygli vert líka.

 7. Þetta er stórfínn pistill.

  Framtíðin í prentúgáfunni hlýtur að liggja í því að kafa dýpra og skrifa lengri greinar um færri fréttir. T.d. gengur Economist, sem kemur út vikulega, mjög vel og hefur útbreiðsla þess blaðs aukist jafnt og þétt, eða um 6% á ári undanfarin 10 ár.

  Svo geta þeir skrifað styttri skúbb og fréttir sem eru háðari tíma og birt þær á vefnum. Fréttaskýringarnar geta þeir selt en gefið ókeypis aðgang að styttri fréttum því það er líklega rétt hjá þér að menn munu ekki borga slíkar örfréttir á næstunni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s