Skilaboð mín til kjósenda

Frá því ég man eftir mér hefur umræða um íslensk stjórnmál fyrst og fremst snúist um efnahagsmál. Lítið sem ekkert rúm hefur verið til þess að ræða stórar hugmyndir eins og réttlæti og siðgæði. Nei, það vannst aldrei tími til þess, því á daginn þurfti að græða og á kvöldin þurfti að grilla. Á Íslandi voru engin stjórnmál. Á Íslandi voru bara efnahagsmál. Þessu þarf að breyta.

Ef það á byggja nýtt og betra Ísland á brunarústum þess gamla, þá verður fyrst að breyta umræðuhefðinni. Íslendingar þurfa að læra að tala saman um mikilvæg málefni á öðrum forsendum en efnahagslegum.Stjórnmálamenn þurfa að læra að setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum. Þeir þurfa að læra að stjórnmál snúast ekki um að græða (né að grilla). Þeir þurfa að læra að stjórnmál snúast ekki um völd. Stjórnmál eiga að snúast um réttlæti.

Hlutverk Alþingismanna

Um daginn horfði ég á borgarafund í beinni. Undir lok fundarins vildu spyrlar RÚV fá að vita hvernig frambjóðendur ætluðu að skapa ný störf í landinu. Að mínu viti er það ekki í höndum Alþingis að skapa atvinnu í þessu landi. Alþingi Íslendinga er löggjafasamkoma. Alþingismaður sem lofar kjósendum að skapa 9.999 störf hér, og eitt starf þar, ástundar ekki stjórnmál heldur populisma.

Löggjafasamkoma; ekki atvinnumiðlun. Þessi misskilningur virðist tilkominn vegna þess að löggjafavaldið og framkvæmdavaldið hafa ruglað saman reitum. Fyrir einhverjar sakir, þá virðist enginn íslenskur stjórnmálamaður nokkurn tíma bjóða sig fram til Alþingis. Þeir bjóða sig allir fram til ráðherra. Þeir virðast lítinn sem engan áhuga hafa hinu eiginlega löggjafahlutverki, en þeim er mjög tamt að tala í frösum framkvæmdavaldsins. “Við munum bora hér, virkja þar og lækka rafmagn alls staðar.”

Þetta er ekki það sem við þurfum.

Réttlæti er dyggð

Ef umræðuhefð íslenskra stjórnmála hefði hverfst um réttlæti, siðgæði og almenna skynsemi þá værum við ekki í þeim sporum sem við erum í núna. Ef réttlætið hefði verið æðsta dyggð stjórnmálanna, en ekki ágóði; þá væri fiskveiðistjórnunnarkerfið öðru vísi, þá væri fjármálakerfið öðruvísi. Ísland væri öðruvísi.

Ef löggjafavaldið hefði einhvern tíma staðið í lappirnar og sinnt sinni skyldu og sagt: “Við stundum ekki fyrirgreiðslupólitík, við tryggjum almannahag,” þá sæti þessi þjóð ekki föst í skuldafeni svokallaðra útrásarvíkinga, réttnefndra gróðapunga.

Skipbrot hagræðingarinnar

Undanfarin ár hefur hugmyndafræði hagræðingarinnar verið alls ráðandi á Íslandi. Hagræðing er ekkert annað en kurteisislegt orðalag yfir arðrán. Í allri þessari hagræðingu hefur hagur almennings stórversnað, skattbyrði aukist og bilið breikkað á milli stétta þessa lands. Íslenskir lágmarkstaxtar jafnast nú á við það sem best þekkist í Austur-Evrópu, á meðan verðlag nálgast óðfluga það sem við hæst þekkjum í Evrópu – Austur eða Vestur; í það minnsta ef verslað er fyrir íslenskar krónur.

Á meðan þessi sundrung hefur sáð sér í íslensku þjóðfélagi hefur íslenskur almúgi gleymt stöðu sinni. Íslendingar eru borgarar, ekki neytendur. Þeir njóta réttinda, ekki þjónustu. Markaðsvæðing hugarfarsins hefur verið algjör. Ef Íslendingar rifja upp hvar þeir lögðu frá sér hin borgaralegu réttindi og krefjast þess af stjórnmálamönnum að þeir rækti skyldur sínar við réttlætið, þá er hægt að breyta þessu landi.

Hugmyndafræði vanans

Hugmyndafræði er hættulegt afl. Þar sem er hugmyndafræði, þar er ekki lengur þörf fyrir sjálfstæða hugsun. Smátt og smátt, eina hugsun í einu, drepur hugmyndfræðin gagnrýnina. Íslendingar hafa oft valið hugmyndafræði fremur en heilbrigða skynsemi. Kosið flokkshollustu fram yfir gagnrýni.

Á morgun fara fram alþingiskosningar. Ég bið kjósendur um að leggja hugmyndafræðina á hilluna. Kjósið með almenna skynsemi að leiðarljósi og krefist réttlætis. Hugtökin hægri/vinstri eru til þess eins að afvegleiða umræðuna.

Auglýsingar

2 comments

  1. Frábær grein – Þarna eiga fjölmiðlar mjög stóra sök – því þeir virðast ætla að verða seinni en jafnvel stjórnmálamennirnir sjálfir, til þess að snúa þessari þróun við!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s